138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um gríðarstórt mál að ræða, lög um fjármálafyrirtæki, og við erum að ræða það eftir bankahrun á Íslandi. Margt er til bóta í frumvarpinu og margt gott hefur verið gert í nefndinni en öllum er ljóst eftir umræðu í þinginu, sem stóð aðeins í tvo daga um þetta risastóra mál, að við erum bara nýbyrjuð og það er ekki sómi að því að ganga frá málinu eins og það liggur fyrir núna.

Virðulegi forseti. Við höfum oft rætt hér um breytt vinnubrögð og kannski sérstaklega eftir kosningarnar um helgina. Ég vil trúa því að við sýnum það í verki með því að fara betur yfir þetta mál á milli umræðna og ganga frá lausum endum, sem eru engir smáendar, t.d. hlutum eins og eignarhaldi fjármálafyrirtækja og ýmsu öðru sem við höfum verið að ræða hér (Forseti hringir.) á undanförnum dögum. Ég er bjartsýnismaður að eðlisfari og ég er sannfærður um að meiri hlutinn mun sýna breytt vinnubrögð í þessu máli.