138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Á eftir verða greidd atkvæði um breytingartillögu frá mér þar sem settur er fram tilgangur þess að setja þessi lög. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er að tryggja að fjármálafyrirtæki séu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt með hagsmuni viðskiptavina, hluthafa, stofnfjáreigenda og alls þjóðarbúsins að leiðarljósi.“

Það er markmiðið með þessum breytingum. Hins vegar liggur fyrir, bæði eftir umræðu í nefndinni og hér við 2. umr., að við þurfum að marka okkur skýrari stefnu um það hvers konar fjármálamarkað við viljum hafa á Íslandi. Að hluta til kemur sú stefnumörkun fram hér, við segjum m.a. að við viljum að það séu starfandi sparisjóðir á Íslandi, en að mörgu leyti er stefnan alls ekki nógu skýr. Það er vinna sem við verðum að fara í og klára.

Annað er líka að við erum að sýna mikið traust, við erum að fara að treysta á Fjármálaeftirlitið. Það skiptir geysilega miklu máli að við tökum öll höndum saman og tryggjum það að Fjármálaeftirlitið geti staðið undir því trausti. (Forseti hringir.) Það skiptir öllu máli fyrir Ísland. Ég fagna því að við munum halda áfram að byggja upp fjármálakerfið á ný.