138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um lið sem snýr að sparisjóðunum. Þetta er skýrt dæmi um það að verkið er bara hálfnað. Hér á að gefa afslátt á neytendavernd á þann hátt að sparisjóðir þurfa minna eigið fé en aðrar fjármálastofnanir. Til að tryggja það að engin hætta verði er Fjármálaeftirlitinu ætlað að sjá til þess að viðkomandi sparisjóðir starfi á staðbundnum afmörkuðum mörkuðum. Virðulegi forseti. Enginn veit hvað það er. Kannski er Seltjarnarnes staðbundinn afmarkaður markaður fyrir sparisjóði. Þá skiptir miklu máli að sparisjóðurinn fari ekki á internetið því að þá gæti kannski einhver annar dottið þar inn, og ef hliðið hjá Jóni Gnarr, verðandi borgarstjóra, er ekki komið á svæðið geta menn jafnvel keyrt þangað. En að öllu gamni slepptu, virðulegi forseti, sýnir þetta enn eitt dæmi þess að við eigum eftir að vinna þetta verk. Við getum ekki greitt atkvæði með þessari grein.