138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er um afskaplega mikilvæga breytingartillögu að ræða. Verið er að skylda banka og fjármálafyrirtæki, sem hafa tekið yfir fyrirtæki, til að selja þau innan 12 mánaða, þ.e. að þau geti einungis átt þessi fyrirtæki að hámarki í 12 mánuði. Við þekkjum það að bankar og fjármálastofnanir eru að taka yfir hin ýmsu fyrirtæki og samkeppni gagnvart minni einkafyrirtækjum er ójöfn.

Þessi grein hins vegar, verði hún samþykkt, tryggir að þetta verði tímabundið ástand og fjármálastofnanir þurfa að sækja sérstaklega um það ef þær vilja vera með fyrirtæki í lengri tíma.

Virðulegi forseti. Við í Sjálfstæðisflokknum erum bjartsýnisfólk og við teljum að hægt sé að koma vitinu fyrir meiri hlutann ef þetta mál fer til nefndar. Ég kalla þetta til 3. umr. og við getum farið sérstaklega yfir þetta á milli umræðna.