138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum, frá meiri hluta heilbrigðisnefndar.

Í upphafi nefndarálitsins eru nefndir allir þeir aðilar sem ýmist gáfu umsögn eða komu á fund nefndarinnar og voru þeir æðimargir. Tel ég að nefndin hafi unnið vel og ítarlega að þessu máli.

Með frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði um yfirlækna, yfirhjúkrunarfræðinga og deildarstjóra hjúkrunar verði felld brott úr lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að 2. og 3. mgr. 10. gr. laganna falli brott en þær kveða á um að faglegir stjórnendur helstu fagsviða heilbrigðisstofnunar beri faglega ábyrgð, gagnvart næsta yfirmanni, á þeirri þjónustu sem undir þá heyrir. Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að 2. mgr. 17. gr. laganna falli brott en ákvæðið kveður á um að forstjórar og framkvæmdastjórnir heilbrigðisstofnana skuli hafa samráð við yfirlækni og yfirhjúkrunarfræðing heilsugæslustöðvar þegar sérmál hennar er til ákvörðunar. Í athugasemdum við frumvarpið segir að því sé ætlað að auka svigrúm til að endurskipuleggja heilbrigðisstofnanir með því að gera kleift að sameina eða breyta stöðum stjórnenda þar sem það er talið auka skilvirkni og draga úr kostnaði. Meiri hlutinn telur ekki nauðsynlegt að fella brott 2. og 3. mgr. greinarinnar til að auka möguleika á endurskipulagningu stofnana, draga úr rekstrarkostnaði eða gera þær skilvirkari. Meiri hlutinn bendir á að umtalsverðar skipulagsbreytingar hafa verið gerðar til að mynda á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og fleiri stofnunum þar sem deildir hafa verið lagðar niður eða sameinaðar og stjórnendastörfum bæði lækna og hjúkrunarfræðinga verið fækkað. Leggur meiri hlutinn til að 1. gr. frumvarpsins verði felld brott.

Fram kom á fundum nefndarinnar og í minnisblaði heilbrigðisráðuneytisins sem lagt var fyrir nefndina að 2. mgr. 17. gr. laganna hamlaði sérstaklega hagræðingu og skilvirkni innan heilsugæslunnar og var Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sérstaklega nefnd enda hefur ekki verið talið fært að óbreyttum lögum að stækka rekstrareiningar og hafa til að mynda einn yfirlækni og einn yfirhjúkrunarfræðing yfir fleiri en einni heilsugæslustöð. Það er álit meiri hlutans að ekki sé nauðsynlegt að fella brott ákvæði 2. mgr. 17. gr. laganna til að ná fram þessum möguleika á skipulagsbreytingum Meiri hlutinn leggur því til breytingar á 2. gr. frumvarpsins sem er ætlað að tryggja samráð milli æðstu stjórnenda og fagstjórnenda heilsugæslu. Ákvæðið er þá ekki bundið við einstakar heilsugæslustöðvar og opnar þannig á breytingar í átt að aukinni hagræðingu.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Við 1. gr. Greinin falli brott.

2. Við 2. gr. Greinin orðist svo: 2. mgr. 17. gr. laganna verður svohljóðandi:

Forstjórar og framkvæmdastjórnir heilbrigðisstofnana skulu hafa samráð við faglega yfirmenn í heilsugæslunni þegar sérmál hennar er til ákvörðunar

Siv Friðleifsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálit þetta rita auk mín hv. þingmenn Anna Margrét Guðjónsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Skúli Helgason og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Hæstv. forseti. Nefndin fór ítarlega yfir málið og telur meiri hlutinn mikilvægt að skýrt sé kveðið á um faglega ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna gagnvart yfirmönnum sínum á þeirri heilbrigðisþjónustu sem veitt er líkt og nú er gert í 10. gr. laga um heilbrigðisþjónustu. Nefndin telur að með því sé leitast við að tryggja öryggi sjúklinga og gæði þjónustunnar. Í umsögnum var enn fremur bent á að rannsóknir sýni að fagleg nærstjórn tryggi betur skilvirkni og góða þjónustu en því fjær sem stjórnin er því ómarkvissari verði þjónustan og gæði hennar og skilvirkni minnka.

Í umsögnum um frumvarpið mátti greina mismunandi skoðanir á hvort rétt væri að fella brott framangreindar málsgreinar. Var bent á að með vaxandi fjölda annars fagfólks í heilbrigðisstéttum gæti sú lögbundna tvískipting sem felst í 2. og 3. mgr. greinarinnar hamlað breytingum á fyrirkomulagi og skipulagi þjónustu heilbrigðisstofnana. Aftur á móti var jafnframt bent á mikilvægi þess að viðkomandi yfirmaður yrði að hafa fagþekkingu á þeirri þjónustu sem veitt væri, til að mynda að yfirmaður hjúkrunar bæri faglega ábyrgð á hjúkrun.

Nefndin er sammála því síðarnefnda og telur mikilvægt að tryggja að yfirmaður sé ekki úr annarri fagstétt en þeirri sem ber faglega ábyrgð. Bendir nefndin jafnframt á að í 4. mgr. 10. gr. laganna er kveðið á um að aðrir fagstjórnendur innan heilbrigðisstofnunar beri faglega ábyrgð á þeirri þjónustu sem þeir veita og undir þá heyrir í samræmi við stöðu þeirra í skipuriti stofnunarinnar. Hér undir geta því fallið aðrir en yfirlæknar og deildarstjórar hjúkrunar. Nefndin telur að þetta ákvæði greinarinnar komi til móts við þær breytingar sem verða á þjónustu heilbrigðisstofnana, til að mynda með auknum fjölda fagfólks innan heilbrigðisstétta. Enn fremur telur nefndin að ákvæðið tryggi að aðrar fagstéttir heilbrigðisþjónustu geti borið faglega ábyrgð á þeirri þjónustu sem til að mynda þjónustudeildir veita, svo sem iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar o.fl. Leggur nefndin því til að 1. gr. frumvarpsins verði felld brott.

Það er einnig álit meiri hluta nefndarinnar að nauðsynlegt sé að lagaákvæði séu skýr svo að túlkun þeirra hamli ekki eðlilegri hagræðingu á þessum tímum og telur að ef fyrir liggur að faglegur og rekstrarlegur ávinningur sé af sameiningu heilsugæslustöðva í stærri rekstrareiningar skuli líta á hverja heilsugæslustöð sem starfsstöð með faglega yfirstjórn samkvæmt skipuriti. Aftur á móti ályktar nefndin að tryggja verði þjónustu og faglega ábyrgð á hverri heilsugæslustöð. Slíkt geti verið tryggt þó að einn yfirlæknir og einn yfirhjúkrunarfræðingur séu yfir tveimur eða fleiri heilsugæslustöðvum, enda sé litið til landfræðilegra sjónarmiða og nærþjónustu þegar slíkar skipulagsbreytingar eru fyrirhugaðar.

Meiri hluti nefndarinnar telur enn fremur mikilvægt að samráð sé á milli forstjóra og framkvæmdastjórna heilbrigðisstofnana og faglegra yfirmanna heilsugæslunnar þegar málefni hennar eru tekin til ákvörðunar og það sé til þess fallið að tryggja frekar gæði og öryggi þjónustu til einstaklinga og fjölskyldna sem leita til heilsugæslustöðva og nýta sér þjónustu þeirra. Það er álit meiri hluta nefndarinnar að ekki sé nauðsynlegt að fella brott ákvæði 2. mgr. 17. gr. laganna til að ná fram þessum möguleika á skipulagsbreytingum, og eins og hér hefur komið fram leggur meiri hluti nefndarinnar til að 2. gr. frumvarpsins tryggi áfram samráð á milli æðstu stjórnenda og fagstjórnenda í heilsugæslu.

Hæstv. forseti. Ég tel að með þessum breytingum sem unnar voru í samráði við heilbrigðisráðuneytið, eftir yfirferð yfir umsagnir sem komu og ítarlega skoðun á málinu, sé það ljóst að mjög miklar skipulagsbreytingar hafi verið gerðar á heilbrigðisstofnunum. Þar er kannski helst að líta til Landspítalans sem stærstu stofnunarinnar sem hefur breytt mjög skipuriti sínu fram og til baka og myndað ýmis svið sem ekki fyrirfundust áður og breytt í raun og veru allri sinni stjórnsýslu og gert hana skilvirkari. Það á við um aðrar stofnanir líka, og í þeim mikla niðurskurði sem stofnanir standa frammi fyrir á þessu ári og næsta ári hafa stofnanir hagrætt og stækkað einingar. En fram hafa komið alvarlegar ábendingar um að varasamt sé að taka þessa faglegu ábyrgð frá nærþjónustunni. Því tel ég að það eigi að geta náðst gott samkomulag um að fara þessa leið, þannig að heilsugæslan, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hafi möguleika á að mynda stærri rekstrareiningar og eins geti svæðisbundnar stofnanir, eins og Heilbrigðisstofnun Vesturlands sem nú er verið að mynda, horft til annarra svæðisbundinna heilbrigðisstofnana til að skipuleggja stofnanirnar þannig að ábyrgur fagaðili sé á hverjum stað, samanber Heilbrigðisstofnun Austurlands. Ábendingar hafa komið fram um að breyta ekki núverandi lögum, þau hafi ekki hindrað breytingar á skipulagi og séu góð trygging fyrir því að fagleg ábyrgð sé á hverjum stað og sérstaklega þar sem vegalengdir eru miklar. Ekki er hægt að vísa til faglegrar ábyrgðar hjúkrunarframkvæmdastjóra og framkvæmdastjóra lækninga þar sem vegalengdir eru miklar og þeir geta ekki borið faglega ábyrgð á starfsemi sem er tiltölulega einangruð. Þar verður fagleg ábyrgð að vera alveg skýr.

Eins og fram kemur í frumvarpinu voru ekki uppi hugmyndir í ráðuneytinu um að gera tillögur um miklar breytingar og í rauninni eingöngu hvatning til stofnana um að þær skoði sitt innra skipulag með tilliti til hagræðingar eins og þær hafa verið að gera. Ég tel því að allir ættu að geta vel við unað varðandi þær breytingar sem hér eru lagðar fram.