138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[17:08]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það var í rauninni athyglisvert að sjá hvernig meiri hlutinn afgreiddi þetta mál og það er kannski dæmi um gamla tíð og eitthvað sem ég held að við flest mundum vilja breyta. Í stærra samhengi er þetta þannig að hæstv. ráðherra leggur hér fram frumvarp sem felur í sér að verið er að gefa stofnunum meiri sveigjanleika varðandi skipurit sín. Það hefur vakið athygli margra, sérstaklega þeirra sem starfað hafa í heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum hvað það er niðurnjörvað í íslenska löggjöf hvernig skipurit einstakra heilbrigðisstofnana eiga að líta út og skiptir ekki máli hvort það eru litlar eða stórar einingar.

Auðvitað er grundvallarforsenda í öllu þessu að faglegi þátturinn, öryggi sjúklinga, sé útgangspunkturinn og það sem skiptir mestu máli. Það vakti hins vegar athygli að landlæknir sem á að bera ábyrgð á þeim þætti gerði engar athugasemdir við frumvarp ráðherrans og taldi að þetta kæmi ekkert niður á öryggi sjúklinga eða faglega þættinum.

Í örstuttu máli var það sem gerðist að meiri hlutinn í heilbrigðisnefnd tók í rauninni út alla aðalþættina í þessu stutta frumvarpi. Þetta voru í rauninni tvær málsgreinar, önnur var tekin út og hin stóð eftir mjög útvötnuð. Það er verið að ganga frá frumvarpinu með þessum hætti og samþykkja sem lög frá Alþingi án þess að menn komi með neinn valkost við þá sýn sem ráðherra var með og fór yfir í framsöguerindi sínu. Við erum hér að afgreiða mál án nokkurrar pólitískrar sýnar. Ef það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta mundi auka sveigjanleika og gera það að verkum að auðveldara væri fyrir heilbrigðisstofnanir að hagræða án þess að það kæmi niður á faglega þættinum, er það auðvitað mikið ábyrgðarmál hvernig þingið gengur frá þessu, það er ekkert öðruvísi.

Það sem sjáum hér er einfaldlega þetta, það er eitthvað sem við verðum að fara að horfast í augu við og við höfum ekki rætt það hér, við þurfum að halda uppi þjónustu, m.a. í heilbrigðismálum, með miklu lægri tilkostnaði en við höfum gert á undanförnum áratugum. Það er verkefnið. Mikil ábyrgð hvílir á þinginu, sem felst í því að afgreiða frumvörp, hvort sem þau eru fjárlagafrumvörp eða frumvörp eins og þetta, að koma með sína sýn á hvernig — í þessu tilfelli — forsvarsmenn heilbrigðisstofnana eiga að ná þessu markmiði. Ég reikna með því að menn hafi sameiginlegt markmið en við verðum að gera meiri kröfur til okkar en að ganga frá málinu eins og hér er gert. Meiri hlutinn hefur ekki komið með nein málefnaleg rök heldur hefur hann bara sagt að hann sé að koma til móts við ákveðin sjónarmið. Hann hefur ekki komið með neinn valkost við frumvarp hæstv. ráðherra sem ég vek athygli á að kemur ekki frá mínum flokki og er ekki í mínu umboði. En mér þótti hæstv. ráðherra koma hér með málefnaleg rök fyrir því að hún væri hér að flytja mál sem mundi auðvelda okkur að ná því markmiði að halda uppi heilbrigðisþjónustu í landinu með minni tilkostnaði. Það er það sem við verðum að gera.

Verkefnið er gríðarlega stórt. Fjárlagahallinn er 100 milljarðar kr. Ég held að við séum öll sammála um að við viljum allra síst skerða jafnmikilvæga þjónustu og heilbrigðisþjónustu þegar við reynum að ná endum saman.

Hér er nefnt að það hefur verið farið út í allra handa skipulagsbreytingar án þess að þessi lagabreyting hafi komið til og er sérstaklega vitnað í Landspítalann. Það er alveg rétt, en við skulum átta okkur á því að það var ekki gert nema af því að menn tóku mjög erfiðar ákvarðanir. Fagleg forusta Landspítalans sem nú er, sem tók við fyrir tveimur eða þremur árum síðan, fór í það að einfalda stjórnskipulagið, fækka stjórnendum. Hún fækkaði sviðum úr 21 í 7. Sama hugmynd var uppi um hvað ætti að gera á landsbyggðinni og markmiðið var það sama, bæði á Landspítalanum og í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, að halda uppi þjónustustiginu og taka þá fyrst og fremst á yfirstjórn en ekki á þjónustunni við sjúklinga.

Það hefur allt saman verið stoppað sem snýr að ráðuneytinu. En Landspítalinn hefur haldið sínu striki og það ótrúlega hefur gerst í þessu erfiða árferði að stofnunin sem er endastöð sem getur aldrei lokað, er opin allt árið, allan sólarhringinn og allur sparnaður annars staðar í kerfinu kemur með einum eða öðrum hætti niður á spítalanum. Þrátt fyrir það allt sjáum við jákvæðar breytingar á spítalanum, breytingar bæði hvað varðar framleiðni og eins í því að stofnunin hefur haldið sig innan fjárlaga.

Við sem erum á þinginu berum mjög mikla ábyrgð. Við höfum alltaf gert það en kannski aldrei meira en núna á heilbrigðissviðinu. Ef meiri hluti nefndarinnar er með málefnaleg rök fyrir því hvernig hægt er að ná þeim árangri, þeim markmiðum sem hæstv. ráðherra lagði upp með, á hv. heilbrigðisnefnd að koma með þau en ekki bara segja að það hafi ýmislegt verið gert án þess að þessar lagabreytingar hafi verið til staðar. En það er ekki gert, virðulegi forseti.

Mér finnst kominn tími til að við förum að tala um hlutina eins og þeir eru. Þetta er verkefnið og ef hv. heilbrigðisnefnd, meiri hlutinn eða stjórnarmeirihlutinn, er með lausnir um hvernig við getum náð því markmiði að halda uppi þjónustunni með minni tilkostnaði og auðveldað þeim sem starfa á vettvangi að gera það, á að koma með þær lausnir. Það var ekki gert í þessu tilfelli. Það eina sem var gert var að allar tennurnar voru teknar úr frumvarpi hæstv. ráðherra án þess að neitt kæmi í staðinn.

Ef þetta er kolómögulegt frumvarp hjá hæstv. ráðherra eiga menn bara að segja það í staðinn fyrir að vera hér í einhverjum leik og taka út allt það sem er í frumvarpinu og ganga frá einhverjum breytingum til málamynda. Það er ekki góður bragur á því, virðulegi forseti, og ég vona að þessi vinnubrögð heyri til undantekninga í nútíð og framtíð.