138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er spurt um og óskað eftir rökum fyrir því að ekki séu gerðar fleiri breytingar á stjórn heilbrigðisstofnana en koma fram í afgreiðslu heilbrigðisnefndar á frumvarpinu. Ég tel að við höfum svarað því í greinargerðinni. Núgildandi lög hafa ekki hamlað miklum skipulagsbreytingum innan heilbrigðisþjónustunnar.

Lengi hefur verið áhugi innan ráðuneytanna, ekki síður heilbrigðisráðuneytisins en annarra, að hafa stofnanir þannig að hægt sé með innra skipulagi að hafa algjöra stjórn á því hvernig þær eru uppbyggðar. Þetta getur átt vel við margs konar þjónustu og margar stofnanir en þegar kemur að viðkvæmum stofnunum eins og heilbrigðisþjónustunni og grunnskólunum þurfum við ákveðinn ramma.

Ég vil minna hv. þingmann á að þær breytingar sem við tölum um í sambandi við 10. gr. komu inn í meðförum þingsins eftir mikla skoðun árið 2007, í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og undir formennsku hans í heilbrigðisnefnd. Þá komu inn þær breytingar, sem við styðjum að verði þar áfram, að rétt þótti og mikilvægt að alveg skýrt væri hver bæri faglega ábyrgð. Ég studdi þetta þá og get ekki annað en mælt með því að þetta verði óbreytt þar sem það hefur ekki haft áhrif (Forseti hringir.) og með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er hægt að fara í endurskipulagningu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.