138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ekki sé gott að finna samanburð í frumvarpi um fjármálafyrirtæki sem er mjög vanreifað mál, eins og komið hefur fram í umræðunni, en látum það liggja á milli hluta. Hv. þingmaður segir að við berum faglega ábyrgð. Er hv. þingmaður að segja að landlæknir hafi ekki sinnt starfi sínu þegar hann gaf umsögn um frumvarpið? Hv. þingmaður segir að enginn hafi kvartað undan því. Ég verð að viðurkenna að það kemur mér mjög á óvart ef það hefur ekki borist til eyrna hv. þingmanns. Ég var heilbrigðisráðherra og svo sannarlega heyrði maður þetta frá flestum þeim sem störfuðu innan heilbrigðiskerfisins, sérstaklega frá þeim sem stýrðu stofnunum og þeim sem höfðu starfað í öðrum löndum og komu síðan hingað heim.

Varðandi faglega þáttinn þá er náttúrlega alvarlegt ef hv. þingnefnd treystir ekki landlækni, það er auðvitað mjög alvarlegt. Ég hef ekki ástæðu til þess og það liggur alveg fyrir að ef við náum ekki sparnaði í yfirstjórn heilbrigðiskerfisins þarf að spara annars staðar og það kemur beint niður á sjúklingunum. Af hverju heldur hv. þingmaður að Landspítalinn hafi farið í allar þessar skipulagsbreytingar? Af því að hann hafði ekkert annað gera? Af því að það var skemmtilegt? Nei. Það var til þess að viðhalda þjónustunni sem þær erfiðu ákvarðanir að fækka sviðum úr 21 niður í 7 voru teknar.

Við, virðulegi forseti, erum hins vegar ekki að hagræða annars staðar. Það þýðir að sparnaðurinn mun koma niður á sjúklingunum, þeim sem þurfa á þjónustunni að halda, svo einfalt er það. Ef menn eru með aðra leið en hæstv. ráðherra lagði til eiga menn að koma fram með hana. En það hefur ekki gerst, virðulegi forseti.