138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kvartar yfir því að löggjafinn hafi ekki vitað af samkomulagi sem var gert í desember. Ég vil því upplýsa að á fundum viðskiptanefndar kom fram að þeir sem gerðu þetta samkomulag í desember héldu að það þyrfti ekki þessa lagabreytingu til sem frumvarpið kveður á um. Það skýrir kannski ástæðu þess að löggjafanum var ekki kunnugt um samkomulagið.

Hv. þingmaður bendir jafnframt á að nýju bankarnir muni eiga erfitt með að útvega sér fjármögnun nema með lagabreytingu sem ýti forgangi innstæðutryggingarsjóðs aftar í röðina. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að það sé mjög brýnt að samþykkja frumvarp um innstæðutryggingar til þess einmitt að geta byggt upp innstæðutryggingarsjóð sem taki yfir það hlutverk sem yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um fulla innstæðutryggingu hefur, þ.e. að auka trúverðugleika bankakerfisins. Ég tel að það sé mjög brýnt til þess að auðvelda bönkunum að útvega sér fjármagn að við komum upp þessu innstæðutryggingarkerfi og gerum líkt og Danir ætla sér að gera og losum okkur undan ríkisábyrgðinni með öflugu innstæðutryggingarkerfi. Það er líka ljóst að innstæðutryggingarsjóður mun aldrei geta tryggt allar innstæður ef um kerfishrun (Forseti hringir.) verður að ræða.