138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Upplifun mín í hv. viðskiptanefnd á því að umsagnaraðilinn hafi sagt að hann vissi ekki af þessari lagabreytingu var ekki nákvæmlega sú sama. Ég vek athygli á því að nokkrir dagar eru síðan þetta kom inn í þingið. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra talaði ekki um þetta í framsögu sinni og þegar þetta var kynnt fyrir nefndinni var ekki talað um þetta samkomulag.

Út af hinum þættinum þá spyr ég líka hvort ekki sé nauðsynlegt að setja hér á innstæðutryggingarsjóð til að auka trúverðugleikann og koma okkur frá ríkisábyrgðinni. Þá vil ég vekja athygli á þeim útreikningum sem liggja fyrir og ummælum sem féllu í nefndinni í morgun, en mörg ummæli hafa fallið í þessa veru og allir umsagnaraðilar verið sammála um þau. Í morgun upplýsti stjórn sjóðsins um hið augljósa, að við erum ekki að byggja upp neina sjóðasöfnun í innstæðutryggingarkerfinu. Það vita allir að innstæðutryggingarkerfið getur ekki tekið á kerfishruni en við getum ekki einu sinni tekið á hruni eins af þremur stóru viðskiptabönkunum.

Af því að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, sem sat fundinn í viðskiptanefndinni með mér, kallaði fram í þá var vísað til þess að hugsanlega væri hægt að bjarga litlum sparisjóði. Við verðum að horfast í augu við þennan raunveruleika. Það er auðvitað ekkert unnið með því að taka ríkisábyrgðina af og segja að hér sé innstæðutryggingarkerfi sem getur ekki staðist nein áföll. Þetta kerfi gengur ekki upp, þessi hugsun gengur ekki upp.

Eins og hefur komið fram þá eru það ekki bara við sem erum að skoða þessa grundvallarþætti, heldur er það gert um allan heim. Hvernig geta menn rekið bankakerfi án þess að ábyrgðin liggi meira og minna öll hjá skattgreiðendum? Við verðum að vinna okkur út úr því að þetta sé á ábyrgð skattgreiðenda.