138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því sem kom fram í nefndinni í morgun. Innstæðutryggingarkerfið sem við erum að setja á laggirnar getur ekki borið fall eins af þremur stóru viðskiptabönkunum, ég tala nú ekki um ef þeir sameinast og verða tveir. Það liggur fyrir og það hefur verið upplýst. Þá verða menn að segja hlutina eins og þeir eru, að ef kæmi til falls banka mundi ríkið ekki koma inn í það, ef það er meiningin. Það er til lítils að taka upp einhverja Evróputilskipun og segja að það sé ábyrgð á innstæðum upp á 50 þús. evrur eða 20 þús. evrur ef ekkert styður við það. Við verðum að segja hlutina eins og þeir eru, við getum ekki blekkt almenning hvað þetta varðar.

Ekkert bendir til þess að þó svo að við samþykkjum þetta frumvarp um innstæðutryggingarsjóðinn á eftir, nú fyrir kvöldmat, breyti það einhverju um eðli málsins. Það er ekkert sem tekur við ef slíkt fall verður og svo ég endurtaki það aftur sem kom fram í nefndinni í morgun, þá taldi stjórn innstæðutryggingarsjóðsins að ef nýtt frumvarp yrði að lögum tæki það einhver ár — allir voru meðvitaðir um það að innstæðutryggingarsjóðurinn gæti tekið lán en hann gæti rétt borið fall á einum litlum sparisjóði.

Virðulegi forseti. Þetta eru staðreyndir sem við þurfum að horfast í augu við þegar við byggjum hér upp umhverfi fyrir nýtt fjármálakerfi.