138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að góð kjör væru á þessu skuldabréfi og þá náttúrlega hlýtur maður að spyrja: Góð kjör fyrir hvorn aðilann, skuldarann eða eigandann? Ég reikna með að það sé þá frekar fyrir — ja, ég veit ekki hvort.

Varðandi innlánstryggingar og ríkisábyrgð þá hef ég lesið þá tilskipun sem er í gildi á Evrópska efnahagssvæðinu, gömlu tilskipunina frá 1994. Þar stendur skýrum stöfum, og Icesave-fylgjendur mættu gjarnan hlusta, að fjármálaheimurinn eða fjármálafyrirtækin sjálf eigi að standa straum af þessu innlánstryggingarkerfi enda er mjög eðlilegt að fyrirtæki sem veita innlán borgi þær tryggingar sem starfsemi þeirra þarf, sem eru innlánstryggingarnar. Evrópusambandið er sem sagt að hverfa frá þessu en um leið býr það til ábyrgðarleysi innan stofnana vegna þess að ef þær vita að ríkisábyrgð er á innlánum geta þær hegðað sér eins og þær vilja. Þá geta þær orðið enn léttúðugri í útlánum o.s.frv.

Ég vildi gjarnan að hv. nefnd, sem vonandi fær þetta aftur til umræðu á milli 2. og 3. umr., skoði og kanni alveg sérstaklega hvers vegna svo mikil leynd fylgdi þessu skuldabréfi og hvort verið geti að einhverjir aðilar séu að gera samninga úti í bæ sem krefjast lagabreytinga. Það er mjög undarlegt. Þá eru þeir í rauninni farnir að setja lög.