138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[18:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. formanni fjárlaganefndar, Guðbjarti Hannessyni, fyrir ágæta yfirferð á frumvarpi til lokafjárlaga fyrir árið 2008. Þetta var mikið umbreytinga- og sviptingaár þannig að skiljanlegt er að á ýmsu hafi gengið. Ég hjó eftir því að hann segir lokafjárlög til staðfestingar ekki liggja fyrir. Það er náttúrlega slæmt og ber vott um ákveðið agaleysi og ekki veitir af að auka agann alls staðar.

Það vekur athygli mína að undir frumvarpið rita eingöngu sex hv. þingmenn. Í fjárlaganefndinni eru ellefu þingmenn, frú forseti. Það stendur heldur ekki í nefndarálitinu, eins og oft og iðulega stendur, að fjarstaddir væru þessir og þessir þingmenn. Ég vil því inna formann nefndarinnar eftir því hvernig starfið hafi gengið yfirleitt. Var mætingin ekki betri en þetta? Ellefu þingmenn eru í nefndinni. Ég ætla ekki að telja þá upp, það liggur náttúrlega fyrir í gögnum þingsins hverjir eru nefndarmenn í fjárlaganefnd og ég hef sérstakan áhuga á því — sérstaklega þar sem við erum að tala um aga og annað slíkt og hérna hefur verið nefnt að mæting á nefndarfundi sé ekki sérstaklega góð — að undir svona stórt plagg, þar sem er verið að loka árinu 2008, rita ekki nema sex hv. þingmenn. Ég vil inna formann nefndarinnar eftir því hvar hinir voru.