138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[18:23]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Ég veiti hér framsögu á nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar varðandi lokafjárlög ársins 2008, hrunársins mikla. Þar er margt merkilegt að sjá, finnst okkur hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, sem er á þessu nefndaráliti, í sambandi við hvernig árið er í raun afgreitt.

Ég mun lesa hér upp úr nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Fjárheimildir sem til ráðstöfunar voru á árinu 2008 námu 489,4 milljörðum kr. Útgjöld samkvæmt ríkisreikningi 2008 námu 687,9 milljörðum kr. og staða fjárheimilda í árslok var því neikvæð um 198,5 milljarða kr.

Helstu skýringar á þessu mikla fráviki er gjaldfærsla upp á rúmlega 192 milljarða kr. afskrift af veðlánakröfum sem ríkissjóður yfirtók af Seðlabanka Íslands eftir fall bankanna og af verðbréfalánum til aðalmiðlara. Hér er sem sagt verið að færa bankahrunið yfir á almenning í landinu með formlegum hætti upp á 142 milljarða kr., hvorki meira né minna.

Auk þess voru gjaldfærðar ríflega 35 milljarða kr. lífeyrisskuldbindingar umfram áætlun vegna neikvæðrar ávöxtunar og áfalla sem lífeyrissjóðir starfsmanna ríkisins urðu fyrir í kjölfar bankakreppunnar. Reyndar telur minni hlutinn að hér eigi að tilgreina með beinum hætti þau töp sem lífeyrissjóðirnir urðu fyrir á hlutabréfa- og skuldabréfaeign í stað þess að kalla þau neikvæða ávöxtun, því að stór hluti af þessu fé er einfaldlega horfinn. Að mati minni hlutans þarf að kanna betur ástæður þess mikla taps sem lífeyrissjóðir starfsmanna ríkisins urðu fyrir og vekur minni hlutinn athygli á því að tapaðar fjármagnstekjur vegna þessa geta numið verulegum fjárhæðum. Þar sem kostnaður vegna þessa taps lífeyrissjóðanna lendir á almenningi í landinu hlýtur það að vera eðlileg krafa að gerð verði úttekt á þessum lífeyrissjóðum og það verði skipt um stjórnir þeirra að því marki sem unnt er. Þetta eru 35 milljarðar kr. sem velt er yfir á skattgreiðendur vegna mistaka stjórnenda lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins. Þeir eru allir enn á sínum stað.

Seðlabanki Íslands og ríkissjóður urðu fyrir verulegu tjóni vegna ótryggra veðlána Seðlabankans til fjármálafyrirtækja. Í lok árs 2008 námu kröfur Seðlabankans vegna þessara lánveitinga 345 milljörðum kr. Bankinn tapaði sjálfur 75 milljörðum kr. en ríkissjóður yfirtók 270 milljarða kr. Í ríkisreikningi kemur fram að ákveðið var að afskrifa 174,9 milljarða kr. af kröfunum. Bankarnir sem féllu öfluðu sér lausafjár með því að taka lán hjá minni fjármálafyrirtækjum sem fengu síðan lán hjá Seðlabankanum gegn ótryggðum bréfum. Seðlabankinn herti ekki kröfur um veðtryggingar fyrr en í ágúst árið 2008 og setti með því skorður við þessari aðferð bankanna til að afla lausafjár.

Minni hlutinn bendir á að í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2008 er spurt hvers vegna Seðlabankinn hafi ekki brugðist fyrr við þessum leik bankanna þar sem vitað var um hann. Það er mat Ríkisendurskoðunar að með því hefði mátt draga úr því tjóni sem ríkissjóður og Seðlabankinn urðu fyrir við fall bankanna. Minni hlutinn bendir á að það virðist ekki ætlun fjárlaganefndar að hlusta á þessi orð Ríkisendurskoðunar og óska eftir stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands. Það má því velta fyrir sér í kjölfarið til hvers þessi hluti af eftirliti Alþingis er. Minni hlutinn minnir á að liðið er á annað ár frá hruninu og enn er Seðlabanki Íslands með sömu verkefni og honum mistókst að leysa í aðdraganda hrunsins. Eftir því sem best er vitað starfar bankinn einnig enn eftir sömu verkferlum og þá. Með lokafjárlögum 2008 er verið að afgreiða ríkisreikning ársins 2008 og koma afleiðingar hrunsins og mistaka Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins skýrt fram í honum. Almenningur greiðir nú kostnaðinn af þessum mistökum í formi hærri skatta, niðurskurðar og skertrar þjónustu.

Að mati minni hlutans má ætla að miðað við 5% vexti geti vaxtakostnaður einn vegna þessa taps numið 12,5 milljörðum kr. á ári, bara vaxtakostnaðurinn. Enginn skoðar hvað fór úrskeiðis hjá Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytinu, en fjöldi aðila kannar hvað gerðist hjá einkaaðilum. Að mati minni hlutans er eðlilegt að fjárlaganefnd Alþingis, sem er fulltrúi almennings við meðferð opinbers fjár, láti skoða og skýra þennan þátt málsins fyrir þjóðinni. Minni hlutinn telur eðlilegt að Ríkisendurskoðun eða annar aðili sem Alþingi velur vinni ítarlega stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands. Jafnframt telur minni hlutinn eðlilegt að inn í úttektina verði tekin þau störf stjórnsýslunnar, og þá sérstaklega fjármálaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins, sem tengjast þroti Seðlabankans síðustu mánuði fyrir hrun. Minni hlutinn lýsir undrun yfir því að Ríkisendurskoðun skuli ekki að eigin frumkvæði hafa hafið þessa úttekt strax í kjölfar hrunsins og telur það ámælisvert að stofnunin skuli ekki hafa lokið slíkri rannsókn samhliða endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2008.

Yfirteknar veðlánakröfur Seðlabanka Íslands námu 345 milljörðum kr. Tapaðar veðlánakröfur ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands vegna falls bankanna árið 2008 nema um 267 milljörðum kr. sem eru um 57% af tekjum ríkissjóðs það ár og um 18% af allri vergri landsframleiðslu ársins. Fáheyrt er að seðlabankar fari á hausinn, en í raun er hér um að ræða gjaldþrot sem orðið hefur þjóðinni gríðarlega dýrt. Minni hlutinn telur það einfaldlega ámælisvert og í raun óábyrgt að formaður og meiri hluti fjárlaganefndar skuli ekki hafa krafist ítarlegrar stjórnsýsluúttektar á starfsháttum Seðlabanka Íslands vegna ársins 2008.

Minni hlutinn leggur til að frumvarpinu verði hafnað þar til fullnægjandi skýringar á falli Seðlabanka Íslands hafa verið gefnar og fyrir liggur úttekt um hvað unnt er að læra af þeirri stórkostlegu sóun á opinberum fjármunum sem hér átti sér stað. Enginn hefur enn skoðað hvað er að hjá bankanum og ekki hefur enn verið útskýrt fyrir almenningi með fullnægjandi hætti hvað gerðist. Jafnframt þurfa að liggja fyrir nýir verkferlar sem geta tekið með fullnægjandi hætti á aðstæðum sem þessum komi þær aftur upp.

28. maí, 2010. Þór Saari, frsm., Höskuldur Þórhallsson.“

Frú forseti. Eins og fram kemur í þessu nefndaráliti skil ég ekki hvers vegna það hefur ekki verið gerð ítarleg stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands og hlutverki fjármálaráðuneytisins í aðdraganda hrunsins. Þetta er það ár sem hefur sennilega valdið þjóðinni mestu tjóni frá upphafi, að frátöldum móðuharðindunum o.fl. Hér er um að ræða stjórnsýslu sem í rauninni hefur ekki verið gerð úttekt á þrátt fyrir allt og þó að þrír bankastjórar viðkomandi Seðlabanka hafi í rauninni verið reknir liggur ekkert fyrir annað en að í fjármálaráðuneytinu og í Seðlabankanum sé sama fólk við sömu störf og var þar í aðdraganda hrunsins og ekki liggur fyrir hvort búið er að breyta verkferlum. Þess vegna tel ég einboðið að Alþingi geti einfaldlega ekki hleypt þessu máli í gegn án þess að fram fari stjórnsýsluúttekt á því.

Ég leyfi mér að benda á að í Seðlabankanum eru líka starfandi framkvæmdastjórar á mjög háum launum. Þar var starfandi heilt svið sem var stofnsett og hét fjármálastöðugleikasvið. Þegar það svið var stofnsett — ég starfaði í Seðlabankanum þegar það var — var ráðið fólk sem var á það háum launum að það þurfti að hækka laun bankastjóranna til þess að ná þeim upp fyrir þá nýráðnu. Þetta fjármálastöðugleikasvið hafði það eina verkefni að tryggja fjármálastöðugleika á Íslandi. Fjármálastöðugleikasvið Seðlabankans brást augljóslega algjörlega. Í skjóli nætur í kjölfar hrunsins var nafni fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans breytt í fjármálasvið. Þetta er það sem verið er að gera og er náttúrlega, finnst mér, stórfurðulegt.

Það er ýmislegt sem þarf að skoða. Það þarf að skoða vinnuferlin sem voru í gangi milli Seðlabankans, fjármálaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og viðskiptaráðuneytisins. Það er verið að velta bankahruninu yfir á almenning með þessum lokafjárlögum og ég hef tekið það upp í fjárlaganefnd oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að ég telji að það þurfi að fara fram stjórnsýsluúttekt á því sem gerðist. Það hefur ekki verið gert enn þá og eins og hv. formaður fjárlaganefndar sagði hér áðan gæti verið að það yrði einhvern tíma gert en þetta er ekki rétti tíminn til að gera það.

Í umræðum um þetta mál í fjárlaganefnd kom fram sú hugmynd frá að mig minnir formanni og jafnframt öðrum nefndarmönnum að þingmannanefnd Alþingis, sem er að fara yfir skýrsluna, ætti að gera þessa úttekt. Undir þetta var tekið af hv. þingmönnum Þuríði Backman og Oddnýju Harðardóttur. Ég fagna því. Oddný Harðardóttir á sæti í þingmannanefndinni og beitir sér þá kannski fyrir því að þetta verði tekið upp þar. Það skiptir kannski ekki endilega máli hver gerir hvað svo fremi sem upplýst er fyrir almenningi hvað gerðist. Það er verið að skera niður velferðarþjónustu, heilsugæslu, menntamál, samgöngumál, allt sem hægt er að nefna vegna þess að hér varð algjört bankahrun og hér brugðust stofnanir. Þessar stofnanir eru í eigu almennings og fjármagnaðar af almenningi og almenningur á einfaldlega rétt á því að fá að vita hvað gerðist.

Vonandi verður fyrir rest þessu hruni stjórnsýslunnar — því að það er stjórnsýslan sem hrynur hér í aðdraganda hrunsins — vísað til Ríkisendurskoðunar til ítarlegrar úttektar. Ég hreinlega vona það. Ég átta mig ekki á því hvað menn eru að fara ef þeir ætla sér ekki að gera það.

Hér er komið álit okkar á þessu máli. Ég fagna því sem hv. formaður fjárlaganefndar sagði um lánamál ríkisins, þ.e. að á sínum tíma hafi Lánasýsla ríkisins verið færð inn í Seðlabankann og sé þar enn þá. Hún gengur ekki nógu vel þar. Það þarf að koma Íslandi aftur á það plan sem það var á með sjálfstæða lánasýslu sem starfar algjörlega á faglegum forsendum utan við Seðlabankann og utan við fjármálaráðuneytið þó að hún heyri að sjálfsögðu undir fjármálaráðherra. Það eru bestu aðferðir við stýringu lánamála ríkissjóða, eins og hjá OECD.

Eitt af því sem ég er spurður að í hvert einasta skipti sem ég fer á fundi og ráðstefnur erlendis er: Með hvaða hætti eruð þið búin að lagfæra lánamál ríkissjóðs á Íslandi? Svar mitt er alltaf þannig að ekki sé búið að lagfæra þau, þau séu enn þá í sama farvegi. Þetta er bara spurning um að drífa í að koma því máli á koppinn. Það yrði ríkissjóði Íslands og Íslandi til mikils framdráttar á erlendum vettvangi og á erlendum lánamörkuðum ef menn gætu sýnt fram á að lánastýring ríkissjóðs væri með því besta sem gerist í heiminum. Það er einfaldlega framkvæmdaverkefni að koma því á og allir mundu njóta góðs af, ríkissjóður, almenningur og orðspor Íslendinga erlendis. Þess vegna fagna ég því að formaður fjárlaganefndar hafi áhuga á málinu og vona að því verði fylgt eftir í fjárlaganefnd og af hálfu fjárlaganefndar því að það er brýnt að lagfæra afgreiðslu þessara mála í stjórnsýslunni.