138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[18:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá höfum við hlýtt á nefndarálit minni hluta fjárlaganefndar. Í raun var sá ágreiningur sem þar kom upp fyrst og fremst um það hvort þau málefni sem í nefndarálitinu eru eigi heima með lokafjárlögum eður ei. Ágreiningurinn var fyrst og fremst um það en ekki þær lýsingar sem eru í nefndarálitinu um hvernig mál fóru í Seðlabankanum eða annað slíkt.

Þegar maður hlustar á framsöguna má lesa út úr álitinu að tilhneiging hafi verið hjá fjárlaganefndinni að fela einhverja hluti. Þannig er málið alls ekki heldur var ágreiningur um hvað ætti að taka fyrir og að rugla ekki saman verkefnum.

Það er rangfærsla í þessu nefndaráliti að mínu mati sem ég tel mikilvægt að leiðrétta. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn bendir á að það virðist ekki ætlun fjárlaganefndar að hlusta á þessi orð Ríkisendurskoðunar og óska eftir stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands.“

Ríkisendurskoðun hefur hvergi stungið upp á stjórnsýsluúttekt þannig að samhengið er rangt. Aftur á móti hefur hv. fulltrúi í nefndinni óskað eftir því og bent hefur verið á að stjórnsýsluúttektir á vegum Ríkisendurskoðunar eru fyrst og fremst unnar að ósk forsætisnefndar. Við skulum ekki gera lítið úr því að auðvitað þarf að leita allra skýringa á hvað gerðist í Seðlabankanum og í stjórnsýslunni og til þess eru valdir aðilar. Það er gríðarlega ítarlegur kafli um þetta í rannsóknarskýrslunni sem skiptir mjög miklu máli. Síðan hefur þingið fundið sér þann farveg sem á að fara yfir þessi atriði í og þar er eðlilegt að þetta sé tekið fyrir og þá kallað eftir frekari rannsóknum ef ástæða er til.

Þetta er sá farvegur sem meiri hluti fjárlaganefndar taldi eðlilegan og um það var ágreiningur en ekki lýsingar á þessu mikla tapi.

Ég ítreka að ríkisreikningur lá fyrir varðandi 2008 og lokafjárlögin eru fyrst og fremst staðfesting á þeim talnaupplýsingum sem þar eru. (Forseti hringir.) Önnur atriði sem koma fram í þessu nefndaráliti eru sjálfstæð mál sem tengjast ekki afgreiðslu lokafjárlaga.