138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[18:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að rétt sé að ítreka að ekki er ágreiningur við hv. þm. Þór Saari um að við þurfum að fá eins góðar upplýsingar og hægt er um hvað gerðist og með hvaða hætti. Við þurfum að læra af þessu, við þurfum að laga lagaumhverfið og mörg af þeim atriðum sem hann hefur nefnt. Það er enginn ágreiningur um það af minni hálfu. Ágreiningurinn er fyrst og fremst um hvort það sé forsenda þess að afgreiða lokafjárlög sem eru komin allt of seint fram og eru fyrst og fremst til að staðfesta tölur í ríkisreikningi.

Ég spurði sérstaklega um það í fjárlaganefndinni hvort ágreiningur væri um einhverjar tölur sem menn vefengdu að væru réttar og þyrfti frekar að skoða af því að það hefði þá kallað á sérstaka vinnu. Það var ítrekað af hv. þm. Þór Saari að svo væri ekki heldur væri fyrst og fremst verið að óska eftir að vinna frekari úttekt á því sem gerðist, hvernig þetta gat gerst og hvaða lærdóm við eigum að draga af því. Það mál lifir og er sjálfstætt en tengist ekki lokafjárlögunum sérstaklega. Um það snýst ágreiningurinn.