138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

gjaldeyrismál og tollalög.

645. mál
[20:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er vissulega gott að fá þær upplýsingar fram í þinginu að sú vinna sem hann vísar til sé að hefjast. Við erum að fjalla um ýmsa afmarkaða búta af löggjöfinni sem snertir fjármálamarkaðinn, við erum að fjalla um þetta í nokkrum pörtum í þinginu, og ég hygg að það sé svo með fleiri þingmenn en mig að við erum kannski ekki alveg í aðstöðu til að átta okkur á heildarmyndinni. Það er auðvitað hluti af þeirri gagnrýni sem komið hefur fram í sambandi við frumvarpið um fjármálafyrirtæki, sem nú er komið aftur til viðskiptanefndar, að þar sé um að ræða eins konar bútasaum, búta af lagabreytingum og endurbótum á löggjöf um fjármálafyrirtæki sem þó sé ekki skoðað í nægilegu heildarsamhengi. Það er mikilvægt að við sem fjöllum um þessi mál í þinginu, hvort sem við eigum sæti í hv. viðskiptanefnd eða komum að málunum með öðrum hætti, höfum þessa sýn. Ég held að það sé líka mikilvægt að innan stjórnkerfisins sé mörkuð ákveðin sýn varðandi þetta framtíðarfyrirkomulag, að við séum ekki að gera einhverjar breytingar í dag sem við ætlum síðan að breyta til baka á morgun og að hlutirnir verði í einhverju heildarsamhengi.

Ég þakka ráðherra svarið en ég legg að honum að fela þeirri nefnd sem hann vísaði til í svari sínu að skoða málin í svolítið víðu samhengi, m.a. með tilliti til hugsanlegrar sameiningar þessara tveggja stofnana.