138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

gjaldeyrismál og tollalög.

645. mál
[20:11]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi þá nefndarvinnu sem ég kynnti í fyrra andsvari mínu vil ég bæta því við að það er einlægur vilji minn að sú vinna verði unnin í sem mestri sátt, ekki aðeins á þinginu — en vitaskuld á þinginu bæði milli stjórnar og stjórnarandstöðu — en einnig við samfélagið í heild, ef við orðum það þannig, þær stofnanir sem í hlut eiga og starfsfólk þeirra og svo vitaskuld viðskiptavinina, ef má orða það þannig, fjármálafyrirtækin sem leita til þessara stofnana eða eru undir aðhaldi þeirra.

En ég endurtek að ég tel ekki tímabært að fara að undirbúa og hrinda í framkvæmd miklum breytingum á skipulagi Fjármálaeftirlitsins núna. Það kann að vera að niðurstaðan úr skoðun á því hvort Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn eigi að vera sín hvor stofnunin leiði til þess að menn vilji hafa þetta eina stofnun og þá verður því hrint í framkvæmd, en sú niðurstaða er ekki fengin. Vinnan hefur ekki verið unnin og ég legg til að menn gangi til þess verks með opnum huga. Það er alls ekki ljóst í mínum huga á þessari stundu hvort er betra að þetta sé ein stofnun eða tvær, menn greinir einnig á um þetta í útlöndum. Við förum bara í gegnum þetta með opnum huga og fáum vonandi bestu niðurstöðuna eftir vandaða vinnu.

Varðandi tímafresti við afgreiðslu þess frumvarps sem hér er til umræðu verð ég því miður að leggja mikla áherslu á að þetta náist fyrir sumarfrí. Það helgast af tvennu. Í fyrsta lagi er núverandi fyrirkomulag því miður ekki eins gott og menn höfðu vonað og því teljum við rétt að breyta því en þar fyrir utan mundi breyting sem þessi losa Fjármálaeftirlitið við ákveðin verkefni sem mundi gera því betur kleift að sinna öðrum verkefnum en stofnunin er, eins og áður hefur komið fram, mjög hlaðin verkefnum.