138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

gjaldeyrismál og tollalög.

645. mál
[20:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Út af síðustu orðum hæstv. ráðherra hlýt ég að velta fyrir mér af hverju málið kemur inn í þingið 1. júní, ef nauðsynlegt er að mati hæstv. ráðherra að klára það fyrir sumarfrí, vegna þess að almenna reglan er sú að frumvörp, hvort sem um er að ræða stjórnarfrumvörp eða þingmannafrumvörp, sem á að afgreiða að vori koma inn í þingið fyrir 31. mars. Því verður maður að lýsa furðu sinni á því að málið sé svona seint fram komið vegna þess að tæpast, og nú þekki ég það auðvitað ekki í grunninn, er um að ræða einhverjar glænýjar aðstæður sem upp hafa komið á síðustu vikum sem kalla á þessar breytingar. Í ljósi þess að hæstv. ráðherra telur að tíminn til að afgreiða þetta sé skammur, málið verði að afgreiða helst fyrir sumarfrí, er auðvitað óheppilegt að málið komi svona seint inn. Það setur allt starf þingnefndarinnar sem fjalla á um málið í mikla klemmu, svo þeirri athugasemd sé til haga haldið.