138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

húsnæðismál.

634. mál
[20:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóðar upplýsingar um það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra varðandi 1. gr. þar sem kveðið er á um, með leyfi forseta:

„Að bjóða íbúðarhúsnæði sem Íbúðalánasjóður hefur leyst til sín til leigu með kauprétti samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur.“

Nú er í greinargerðinni vísað til þess að Íbúðalánasjóði var veitt heimild til þess að leigja fyrri eigendum íbúðarhúsnæðið áfram til tólf mánaða ef sjóðurinn þurfti að leysa húsnæðið til sín á nauðungaruppboði. Mér fannst á máli ráðherra eins og fólk gæti leigt af Íbúðalánasjóði íbúðir sem væru í eigu sjóðsins þó að það hefði ekki átt íbúðirnar áður. Er í ákvæðinu um að sjóðnum væri heimilt að gera þetta til tólf mánaða verið að breyta þeim tíma, væntanlega samhliða því, eða þarf eingöngu reglugerðarheimild til að breyta því? Er hugsunin sú að íbúðir í eigu sjóðsins sem eru tómar bjóðist öllum til leigu óháð því hvort þeir hafi átt viðkomandi húsnæði áður eða ekki?