138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

húsnæðismál.

634. mál
[20:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt fagna ég þessu. Ég bið hann að endurtaka, hafi hann sagt það, hvort þetta verði til lengri tíma en tólf mánaða eða ef fólk vill ekki nýta kaupleiguréttinn hvort það verði þá að yfirgefa húsnæðið að tólf mánuðum liðnum.

Það kemur fram í greinargerð í frumvarpinu að leigan skuli vera markaðsleiga, sýndist mér, en í frumvarpi dómsmála- og mannréttindaráðherra kemur fram að annað verð megi vera en markaðsleiga eða það verð sem fólk ræður við að greiða. Ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef ég fer rangt með. Nú tala ég eftir minni. Mér datt bara í hug á meðan ráðherra hélt ræðu sína hvort ákvæðið um tólf mánuðina detti út og hvort hér sé miðað við markaðsleigu eða hvort verið sé að vísa til frumvarps dómsmálaráðherra um að leigan sé sú sem viðkomandi aðili ræður við að borga.