138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

húsnæðismál.

634. mál
[20:48]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var það sem mig grunaði, hér er verið að rugla saman annars vegar séreign á íbúðarhúsnæði og hins vegar aðstæðum sem sköpuðust á lánamarkaði.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að við sjálfstæðismenn aðhyllumst séreignarstefnu. Við teljum að dæmin úr heiminum séu of mörg til að aðhyllast sameignarstefnu og vítin of stór til þess að varast þau ekki. Sameignarstefnan er meira og minna liðin undir lok í heiminum. Nú held ég að í öllum ríkjum sé hvatt til séreignar, m.a.s. í Alþýðulýðveldinu Kína. Við höfum séð kosti þess hagskipulags fram yfir sameignarhagskipulagið. Ég get því ekki sagt annað en að sem sjálfstæðismaður er ég stoltur af því að hafa trúað á séreign og eignarrétt síðan ég komst til vits og ára.

Er það rétt skilið hjá mér, og gæti hv. þingmaður upplýst mig um það, fyrir utan hugmyndafræðilegan ágreining, að við séum að reyna að færa kerfið í líkara far og við þekkjum t.d. í Svíþjóð? Þar hafi verið auðveldara að endurskipuleggja skuldir fólks í svona sameignarskipulagi, eins og hv. þingmaður hlýtur að vera að meina.