138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

skilmálabreytingar veðtryggðra lánssamninga og kaupleigusamninga einstaklinga vegna bifreiðakaupa.

646. mál
[21:15]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara þessum spurningum í stuttu andsvari þó að yfirgripsmiklar séu.

Fyrir það fyrsta er auðvitað ljóst að fyrirtækin eru misjafnlega í stakk búin til að bera þetta. Eitt fyrirtæki ber þetta að fullu og öllu leyti og hefur þegar ákveðið að gera svo, þ.e. SP-Fjármögnun. Íslandsbanki hefur lýst því yfir að sú stofnun sé tilbúin til að hrinda þessu í framkvæmd en vilji bíða eftir því að lögin fari í gegn. Sama viðhorf heyrir maður frá hinum fyrirtækjunum, þau vilja fá að sjá lögin fara í gegn áður en þau grípa til aðgerða gagnvart viðskiptavinum sínum. Sú staðreynd að sum fyrirtækjanna ráða við þetta veldur því að vangeta annarra er ekki félagslegt vandamál heldur úrlausnarefni kröfuhafanna sem eiga kröfur á hendur þeim fyrirtækjum. Þeir verða að leggja fyrirtækjunum til meira fé til að standa skil á umbreytingunni eða draga úr endurheimtuvæntingum sínum. Ég hef fulla trú á því að þeir geri það, enda er í öllum tilvikum um að ræða kröfuhafa sem þekkja afskaplega vel til aðstæðna í íslensku samfélagi og hafa verið að mæta skuldurum sem kröfuhafar í bankana og gera ráð fyrir umbreytingum skulda þar.

Varðandi álit ríkislögmanns frá því fyrir einu og hálfu ári síðan um almenna umbreytingu allra myntkörfulána, þá segir í því áliti að í slíkri breytingu mundu auðvitað felast hættur gagnvart stjórnarskránni en aðalatriðið væri að rökstyðja þyrfti slíkar umbreytingar vel. Það teljum við okkur hafa gert í þessu frumvarpi.