138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

launamál seðlabankastjóra.

[10:45]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Svarið við fyrirspurn þingmannsins er nei. Ég hafði enga milligöngu um að þessi tillaga var lögð fram í bankaráðinu, ég vissi ekki um hana og hafði ekkert með hana að gera. Mér kemur það sannarlega spánskt fyrir sjónir ef þetta eru réttar upplýsingar sem hv. þingmaður hefur, að bankaráð ætli að hunsa tillögu kjararáðs og greiða bankastjóranum launahækkun. Það fer alveg þvert gegn lögum. Það er brot á lögum ef það er gert. Mér kemur þetta því gjörsamlega á óvart.

Það er skrýtið þegar verið er að nefna þær 400 þúsund kr. sem hafa verið í umræðunni, að þetta er um það bil sama hækkun og fyrrverandi seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, skammtaði sjálfum sér þegar hann var seðlabankastjóri. (Gripið fram í.) Það fer alltaf ókyrrð hér um salinn þegar ég minnist á Davíð Oddsson. Ég get líka minnst á hv. fyrirspyrjanda, af því að hann er alltaf að tala um gegnsæi. Hann hefur ekki einu sinni upplýst þjóðina um hver styrkti hann um 4,6 millj. kr. í prófkjöri. (Gripið fram í.) Væri nú ekki rétt að minnast á það hver styrkti hv. þingmann af því að hann er talsmaður gegnsæis og opinnar stjórnsýslu? [Hlátur í þingsal.] Það er ítrekað verið að kalla á þetta. Ég kalla nú eftir því (Gripið fram í.) að hv. fyrirspyrjandi upplýsi um það.

Það er allt hreint og klárt í því er varðar aðkomu mína, sem engin er, að þessu máli. Það hefur margítrekað komið fram í sérstakri nefnd sem fjallar um málið. Það hefur margítrekað komið fram í fjölmiðlum, ekki síst hefur það komið fram í fjölmiðli fyrrum forsætisráðherra, sem virðist nánast vera í því að leggja forsætisráðherrann í einelti og hafa gaman af því. Menn skyldu þó ekki geta sett það í samhengi við það að sú sem hér stendur átti nú dulítinn þátt í því að þessi maður hvarf (Forseti hringir.) úr Seðlabankanum með þó nokkurri skömm, vil ég segja.