138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

samningar við kröfuhafa gamla Landsbankans og innstæðutryggingar.

[10:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra út í mál sem kom úr hv. viðskiptanefnd í morgun. Það er frumvarp sem felur í sér að færa veðréttindi til að auðvelda samninga sem gerðir voru 15. desember við kröfuhafa gamla Landsbankans.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvernig á því stendur að þegar hæstv. ráðherra kynnti málið í nefndinni og í þinginu var ekki sagt frá því að þetta tengdist samningum sem gerðir voru við kröfuhafa. Samningarnir eru þannig úr garði gerðir — þetta eru upplýsingar sem við vorum bara að fá áðan — að ef þingið klárar ekki samningana með þeim hætti sem samið var um, fellur skuldabréf það sem Landsbankinn samdi við gömlu kröfuhafana og var mikið hampað hér sem mjög góðu. Það er þá í hættu á að falla úr gildi og sá grundvöllur sem menn lögðu upp með í samningunum er farinn.

Þetta er ekki lítið mál. Þau verða ekkert stærri. Þingið var ekki upplýst um þetta. Hæstv. ráðherra upplýsti ekki þingið um þetta. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra af hverju hann upplýsti þingið ekki um þessar forsendur fyrir lagafrumvarpinu?

Í leiðinni vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það standi virkilega til, og það sé vilji hans, að klára frumvarp um innstæðutryggingar á næstu dögum, eða áður en þinginu lýkur?