138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

uppgjörsmál gamla Landsbankans.

[10:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég vil í raun ræða sama mál og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson opnaði við hæstv. viðskiptaráðherra, um ábyrgðina sem virðist liggja hjá nýja Landsbankanum á skuldabréfi vegna uppgjörs á gamla Landsbankanum. Það sem mig langar að velta upp við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er hvort hann líti svo á að ábyrgðin rýri á engan hátt möguleika bankans til að standa við ábyrgðir gagnvart innstæðum. Hér hefur verið fullyrt við okkur hvað eftir annað í ræðustól, þar á meðal af hæstv. ráðherrum, að enn sé í gildi sú yfirlýsing sem gefin var varðandi ábyrgð ríkisins á innstæðum í bönkum. Ef ég skil þetta rétt, er þá í raun verið að taka skuldabréf þetta og þær ábyrgðir sem verið er að gefa fram fyrir innstæðurnar og þar með væntanlega að rýra þær ábyrgðir sem til eru handa þeim sem eiga aura í þessum bönkum? Mig langar að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra að því hvort þetta sé rétt.

Mig langar líka að biðja hann í framhaldi af því að staðfesta það að ríkisstjórnin, sem hann situr í, ætli sér að standa við fyrri yfirlýsingar um að tryggja þær innstæður.

Það hefur komið fram að með því að taka þessi skuldabréf fram fyrir aðrar kröfur sem eru í bönkunum, og að fá greiddar innstæður kæmi til annars bankaáfalls, þurfi skýringar á þessu frá hæstv. ráðherra. Ég hef áhyggjur af þessu í ljósi þess að ríkisvaldið virðist vera að hengja á bankana viðhengi sem þessi. Þess vegna þarf hæstv. ráðherra að svara því hvort hann telji að þetta hafi áhrif á varnir innstæðna í nýja Landsbankanum.