138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

uppgjörsmál gamla Landsbankans.

[11:03]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að í ljósi þess að færðar voru eignir á móti þessu skuldabréfi hefur þetta í sjálfu sér ekkert með getu bankans til að standa við innstæður að gera. Við hefðum allt eins getað farið þá leið, sem auðvitað kom til greina, að skilja þessar eignir eftir í þrotabúi gamla bankans og vitaskuld ekki gefa út neitt skuldabréf af hálfu nýja bankans. Þá hefði málið einfaldlega verið gert upp innan gamla bankans. Það var talið eðlilegt í ljósi þess að þetta eru innlendar eignir að láta nýja bankann sýsla með þær en tryggja með þessum hætti að gamli bankinn og þar með kröfuhafar hans fengju afraksturinn. Þetta er fyllilega eðlilegt. En ég get hins vegar tekið undir að það eru ákveðnar áhyggjur af því ef bankar fjármagna sig í framtíðinni að verulegu leyti með því að veðsetja eignir sínar og það kann að orka tvímælis hvort nægar eignir eru á móti innstæðum. Það er vandamál sem við munum koma í veg fyrir með því frumvarpi til laga um innstæðutryggingar sem nú er til umræðu í þinginu, því að þar er m.a. kveðið á um hærra (Forseti hringir.) iðgjald ef svo háttar til í innstæðutryggingarsjóði.