138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

tjón ferðaþjónustunnar vegna hrossapestar.

[11:04]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um hugsanlegar aðgerðir vegna langvinnrar hóstapestar í íslenska hrossastofninum sem leitt hefur til þess að Landsmóti hestamanna sem vera átti í Skagafirði í sumar hefur verið frestað. Ekki hefur verið hægt að þjálfa hross og sýna í vor með tilheyrandi viðurkenningum á margra ára ræktunar- og tamningastarfi. Það liggur því ljóst fyrir að tjónið fyrir hrossabændur er gífurlegt. Þá eru stéttir fólks sem vinna við tamningar, járningar, reiðkennslu og fleira orðnar fjölmennar og atvinnuöryggi þeirra í verulegu uppnámi vegna pestarinnar.

Landsmót hestamanna eru orðin afar metnaðarfullur atburður faglega og þjónustulega. Þau sækja um 15 þúsund manns, þar af er a.m.k. fjórðungur erlendir ferðamenn sem koma til landsins eingöngu til að njóta íslenska hestsins með því að fylgjast með honum í keppni. Þeir fara síðan gjarnan í ferðir á hestum um landið og enda svo ferðina ekki sjaldan á því að sækja hrossabændur heim til að kaupa sér gæðing eða ræktunargrip.

Í Skagafirði hefur verið undirbúið mótssvæði til að taka við þessum fjölda með tilheyrandi kostnaði og skagfirskir, húnvetnskir og eyfirskir ferðaþjónustuaðilar hafa lagt mikið í sölurnar til að undirbúa sem best komu íslenskra og erlendra hrossaunnenda. Ljóst er að tjón allra þessara aðila er verulegt og eðlilegt að stjórnvöld komi að þessum náttúruhamförum hestamennskunnar á Íslandi með einhverjum hætti. Mig langar því til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort slík aðstoð hafi verið rædd á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Það er ljóst að nokkur ráðuneyti koma að þessu málaflokki. Mennta- og menningarmálaráðuneytið fer með íþróttahlið hestamennskunnar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið með ræktunarhliðina, iðnaðarráðuneytið með ferðaþjónustuliðinn, utanríkisráðuneytið tengist málinu auðvitað líka og fjármálaráðuneytið heldur svo um budduna.