138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs þegar sjö þingdagar eru eftir af vorþinginu og vil lýsa áhyggjum mínum af stöðu mála í þinginu þar sem það eru u.þ.b. 108 mál sem ríkisstjórnin vill klára á þessum sjö dögum. Á dagskránni í dag á að greiða atkvæði um fjögur mál sem þurfa að koma inn á þingið með afbrigðum og enn bætist við málin. Við erum með talsvert mörg stórmál sem við viljum fá að ræða en eru í raun og veru að drukkna í málafjölda frá ríkisstjórninni. Með tiltölulega nýlegum breytingum á þingsköpum var ætlunin sú að taka á þessum tíma árs afstöðu til þess hvaða mál mundu flytjast fram í september og þess freistað að reyna að klára þá. Nú er svo komið að örfáir dagar eru eftir af þinginu og það eina sem við höfum í höndunum er listi upp á yfir 100 mál frá ríkisstjórninni sem hún vill að nái fram að ganga (Forseti hringir.) á þessum skamma tíma. Nú ríður mikið á að vel takist til í samráði flokkanna og undir forustu forseta þingsins að greiða (Forseti hringir.) þannig úr málum að eitthvert vit verði í því hvernig við ljúkum þingstörfunum í sumar.