138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:19]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli því sem fram kemur hjá síðasta ræðumanni að einhver losarabragur sé á þinginu og fleiri mál órædd en verið hefur á umliðnum þingum, m.a. þegar íhaldið hafði tögl og hagldir í þinginu. Það er bara þannig að hér hafa verið mörg og erfið mál. Ég hygg að við séum ekkert ósammála því hvaða mál eigi að vera í forgangi eins og hér hefur komið fram. Ég hef talað um að það séu mörg mál sem snerta heimilin sem við þurfum að klára. Það eru mörg mál sem snerta atvinnulífið. Það eru mál sem snerta fjármálamarkaðinn. Þetta eru svona stóru málaflokkarnir. Síðan er það stjórnlagaþing, sem mikil áhersla er lögð á að afgreiða hér, þannig að hægt sé að kjósa til stjórnlagaþings næsta haust. Það er mál sem ég legg mikla áherslu á.

Af því að menn tala um á annað hundrað mála sem eigi að fara að keyra í gegnum þingið þá sýnist mér þau nú vera komin niður í 60 og hygg ég að við höfum margoft í gegnum árin séð slíkar tölur þegar sjö dagar lifa eftir af þinghaldi.