138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er komin hér upp til að styðja þá þingmenn sem hafa talað um óstjórn og óstöðugleika sem er á Alþingi Íslendinga nú um mundir. Örfáir dagar eru eftir af þinginu og enn bíða yfir 100 mál.

Hæstv. forsætisráðherra kom hér upp og taldi upp það sem hún vildi sjá í forgangi á þeim dögum sem eftir eru og talaði fjálglega um stjórnlagaþing. Ég sit nú í allsherjarnefnd og þar hefur komið í ljós að það er ekkert svo mikil ánægja með frumvarpið um stjórnlagaþing, hæstv. forseti, vegna þess m.a. að það er ráðgefandi og ekki á nokkurn hátt bindandi fyrir þau stjórnvöld sem nú sitja.

Hæstv. fjármálaráðherra kom líka upp og taldi upp nokkrar plágur, eldgos, hestaveiki, veiki í síldinni. Frú forseti, mesta plága okkar núna er ríkisstjórnin og ég vildi óska þess að hún mundi skila umboði sínu inn. (Gripið fram í.)