138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp undir þessum lið, sem ég geri eiginlega aldrei, vegna þess að mér blöskrar það ef við ætlum að eyða þessum sjö dögum í að ræða fundarstjórn forseta. Ég sat sem forseti á síðasta kjörtímabili undir 600 ræðum um fundarstjórn forseta og ef það er það skynsamlegasta sem við gerum á þinginu er illa komið fyrir okkur.

Annað vekur athygli mína og það er að hér standa menn og ráðast á ríkisstjórnina í sambandi við það hvernig þingið á að starfa. Við höfum kallað eftir því að þingið hafi meiri völd og meiri áhrif. Hér liggja fyrir 100 mál og það er þingið sem forgangsraðar. Nefndirnar forgangsraða. Það er samkomulag milli formanna um það hvernig menn liðka fyrir þannig að hlutirnir fari í gegn. Forgangsröðunin liggur mjög skýrt fyrir. Fyrst er vinna í nefndunum sem er gríðarlega mikilvæg og snýr að heimilunum, fyrirtækjunum og fyrirtækjamálunum, þeim sem varða endurreisn á fjármálafyrirtækjunum. (Forseti hringir.) Það er það sem við ætlum að reyna að klára á næstu sjö dögum. Í guðanna bænum, látum málin hafa forgang en ekki umræður um fundarstjórn forseta.