138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:40]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum vissulega að ræða um fundarstjórn forseta, þá dagskrá sem liggur fyrir fundinum í dag og þær dagskrár sem liggja fyrir fundum næstu daga. Það er réttmæt gagnrýni sem komið hefur fram að mjög mörg mál hafa komið of seint fram hjá ríkisstjórninni. Það er þingsins að forgangsraða. Við erum með fjölmörg mál á dagskrá í dag sem er full sátt og samkomulag um. Auðvitað eigum við að sameinast um að afgreiða þjóðþrifamál á Alþingi, góð mál sem sátt er um að afgreiða. Við erum aftur á móti í pólitík vegna þess að við höfum mismunandi pólitískar skoðanir.

Þessi ríkisstjórn og meiri hlutinn á Alþingi stendur frammi fyrir mörgum mjög erfiðum verkefnum sem eru afleiðingar bankahrunsins, mikillar efnahagskrísu sem varð hér. Þau úrlausnarefni eru þung og erfið og auðvitað reynum við í ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum að komast sem best í gegnum hrunið saman. (Forseti hringir.) Við þurfum líka aðstoð þeirra sem bera ábyrgð á þessum málum (Forseti hringir.) til þess að finna lausnir en við erum í pólitík vegna þess að (Forseti hringir.) við höfum mismunandi sýn á hvernig (Forseti hringir.) leysa á málin.