138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[12:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu. Nú hefur hv. þingmaður starfað á Alþingi í u.þ.b. eitt ár og þess vegna er mjög mikilvægt að hann segi okkur frá því hvernig starfið í fjárlaganefnd er — ég hef aldrei starfað í fjárlaganefnd þannig að ég þekki það ekki — þar sem grunnurinn að aga og ábyrgð í fjármálum ríkisins er lagður. Eftir höfðinu dansa limirnir og það hefur væntanlega sömu áhrif á sveitarfélögin og þjóðfélagið allt, fyrirtæki og einstaklinga.

Hv. þingmaður hefur í ræðu sinni verið nokkuð gagnrýninn á þetta. Hann hefur t.d. rætt um virðisaukaskattsskuld sem hefur verið að dankast einhvern óhemjutíma í kerfinu og ekkert verið gert með. Hann hefur talað um að sumir úti í bæ taki sér fjárveitingavald með því að fara út í framkvæmdir án þess að fjárveiting hafi verið samþykkt o.s.frv. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er nýkominn þarna inn og hefur að mér skilst verið í rekstri, hvort hann hafi séð svona vinnubrögð áður og hvort í nefndinni sé nákvæmlega farið í gegnum það hvernig megi breyta þessu, hvort nefndin sjálf hafi rætt um það hvernig hægt sé að hindra að einhverjir aðilar úti í bæ, opinberir starfsmenn, taki sér fjárveitingavald, þ.e. fari út í framkvæmdir án þess að fyrir liggi samþykki Alþingis, og hvort nefndin sjálf hafi farið í gegnum skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem hv. þingmaður las mjög ítarlega úr, og tekið hana sér til lærdóms.