138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[12:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir yfirgripsmikla og góða ræðu um lokafjárlögin og tek undir það sem kom fram hjá honum sjálfum, hann vann mjög heilt að þessu máli og hefði átt að vera með á nefndaráliti en þannig æxlaðist til að málið var tekið út úr nefnd þegar hann var ekki til staðar.

Það hefur komið fram hjá síðustu tveimur ræðumönnum, hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni og Ásbirni Óttarssyni, að lokafjárlög eiga auðvitað að koma strax fram við fjárlagagerðina á ári hverju og fylgja ríkisreikningi. Þetta eru mikilvæg gögn í fjárlagavinnu hvers tíma.

Það er líka rétt sem hefur komið fram að þarna á sér stað misræmi sem er einmitt gagnrýnt af Ríkisendurskoðun vegna lagaumhverfisins. Á því þarf að taka vegna þess að auðvitað eiga lokafjárlögin og ríkisreikningurinn að vera samhljóða enda eru lokafjárlögin eingöngu staðfesting.

Fjölmörg önnur atriði komu fram sem við höfum verið að taka á. Ég held að það sé ástæða til að það komi fram. Ég held að hv. þingmaður sé mér sammála um að í fjáraukalögum á síðasta ári voru engar stofnanir leiðréttar frá fjárlögunum. Það hefur orðið verulegur árangur. Ég held að við verðum að láta það koma fram vegna þess agaleysis sem hefur átt sér stað að menn hafa tekið mun alvarlegar á fjárlögum ársins og stofnanir hafa staðið sig mun betur en á undanförnum árum samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið, bæði fyrir árið 2009 og það sem við höfum heyrt af árinu 2010. Það er í sjálfu sér ekki ætlunin að leiðrétta í fjáraukalögum nema það sem til fellur og er óvænt og kemur inn á árið.

Hv. þingmaður nefndi fleiri atriði sem varða launagreiðslurnar og yfirfærsluna og ég vona að ég geti komið betur að þeim í seinna andsvari.