138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:11]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um fjárfestingarsamning stjórnvalda og Verne Holdings ehf. um gagnaver á Suðurnesjum. Með því að samþykkja þetta frumvarp opnum við leið fyrir 94 milljarða kr. fjárfestingu inn í íslenskt atvinnulíf og allt að 530 störf á Suðurnesjum þar sem hlutfall atvinnulausra er það hæsta á landinu.

Að stórum hluta er hér um að ræða erlenda fjárfestingu sem kemur frá breskum góðgerðasjóði, Wellcome Trust, sem hefur getið sér gott orð fyrir stuðning við ýmis verkefni á sviði heilbrigðismála, líftækni og nú í seinni tíð upplýsingatækni. Með því að samþykkja frumvarpið rennum við stoðum undir nýja atvinnugrein á Íslandi, umhverfisvæna starfsemi sem notar hóflega orku, greiðir tvöfalt hærra orkuverð en stóriðjan og mengar lítið sem ekkert. (BirgJ: Ertu þá að aðstoða …?) Samkvæmt alþjóðlegri samanburðarathugun er Ísland eitt fjögurra landa í heiminum sem hentar best fyrir rekstur gagnavera. Gagnaver á Íslandi hafa ekki í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda og eru með þeim umhverfisvænstu í heimi. Þetta er gott mál fyrir fólkið okkar á Suðurnesjum, þetta er gott mál fyrir Ísland.