138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku var ég með fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra þar sem ég fór yfir og spurði að því hvort ESA hefði samþykkt hina nýju ríkisábyrgð sem í lögunum er, sérstaklega í ljósi þess að nú er komið til landsins og hefur verið tekið í notkun gagnaver í Hafnarfirði án ríkisábyrgðar og án nokkurra ívilnana frá íslenska ríkinu. Það er klárt brot á EES-samningnum að hér sé verið að hygla einu fyrirtæki með þessu frumvarpi, í ljósi þess sem ég fór yfir áðan að slík starfsemi er komin inn í landið án ríkisábyrgðar.

Frú forseti. Það er eiginlega hálfkjánalegt að standa hér og taka þátt í að setja lög sem er vitað að fara gegn EES-samningnum. Um leið og Alþingi samþykkir þetta sem lög er ESA komin með það mál í hendur og telur að það þurfi hiklaust að gefa út kæru á hendur íslenskum stjórnvöldum.