138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Auðvelt er að tala um siðbót í íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi, auðvelt er að segjast styðja breytt vinnubrögð og enga spillingu í stjórnmálum en raunveruleikinn vill hins vegar oft verða flóknari, ákvarðanirnar erfiðari og svörin hvorki rétt né röng.

Ég vil gagnaver á Suðurnesjum, ég styð álversuppbygginguna, ég styð Keili og Ásbrú, ég vil sjá ECA koma til landsins, ég vil sjá Varnarmálastofnun sameinast Landhelgisgæslunni og vera áfram á svæðinu. Ég vona að það verði hægt að halda áfram að virkja á Suðurnesjum og ég vona svo sannarlega að ferðaþjónustan haldi áfram að blómstra. Á ég þá ekki að ýta á græna takkann? Nei, því að aðalfjárfestirinn á bak við Verne Holdings er einstaklingur sem var einn aðaleigandi Landsbankans. Ákvarðanir þessa eiganda og annarra sem að honum stóðu hafa leitt til þess að við horfum fram á síversnandi lífskjör, mikið atvinnuleysi, hærri skatta og niðurskurð í velferðarkerfinu. Það hlýtur að vera forsenda fyrir öllum þeim verkefnum sem ég nefndi að að þeim komi einstaklingar með hreint mannorð. (Forseti hringir.) Á ég þá ekki að ýta á rauða takkann? Nei, því að á Suðurnesjum er atvinnuleysi hæst á Íslandi og er atvinnuástandið sérstaklega slæmt hjá iðnaðarmönnum. (Forseti hringir.) Því hefði ég viljað vísa málinu til ríkisstjórnarinnar og (Forseti hringir.) fá aðra fjárfesta að verkefninu. Ég mun því sitja hjá.