138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:28]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Að vonum hefur skapast umræða um að stjórnvöld séu að ganga til samninga við fyrirtæki tengt Björgólfi Thor Björgólfssyni í ljósi aðildar hans að bankahruninu og það er vel skiljanlegt. Segja má að við höfum staðið frammi fyrir fjórum kostum í þessu máli: Í fyrsta lagi að samþykkja frumvarpið óbreytt og líta fram hjá nærveru Björgólfs Thors og þeim siðferðilegu álitamálum sem honum tengjast. Ég tel að það hefði verið óverjandi fyrir Alþingi. Í öðru lagi að hafna verkefninu og þar með þeirri dýrmætu atvinnusköpun sem því fylgir á því svæði á landinu þar sem atvinnuleysi er mest. Sá kostur hefði verið fullkomið ábyrgðarleysi að mínu mati. Þriðja leiðin var að samþykkja frumvarpið en með því skilyrði að Björgólfur Thor segði sig frá verkefninu. Sú leið reyndist hins vegar ófær því að þar með hefðum við brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Fjórða leiðin og sú sem við völdum var að styðja málið en með samkomulagi við fyrirtæki Björgólfs Thors um að það nyti ekki fjárhagslegs ávinnings af þessum fjárfestingarsamningi heldur framseldi til ríkisins þær arðgreiðslur sem honum tengjast. Með þessari lausn skorum við á hólm atvinnuleysi sem nú leikur margar fjölskyldur grátt. Því segi ég já.