138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

afbrigði um dagskrármál.

[15:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan er ekki óeðlilegt að farið sé fram á lengri þingfundi í seinustu þingviku þegar mikið af málum liggja fyrir. Það hefur verið upplýst að ríkisstjórnin setur yfir 100 mál í forgang, eftir því sem við komumst næst, og höfum við verið að kalla eftir þeirri forgangsröðun. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum er ekkert óeðlilegt við það að hleypa málum í gegn of seint fram komnum með afbrigðum. Það er hins vegar óeðlilegt að fara fram á slíkt níu vikum eftir að sú dagsetning leið, og fara fram á að bæta enn á þann lista af óafgreiddum málum sem liggja fyrir. Okkur þykir liggja meira á því að fá fram forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Við tökum ekki efnislega afstöðu gegn þeim málum sem farið er fram á að veita afbrigði við, en við greiðum atkvæði gegn þeim afbrigðum með áður sögðum rökum.