138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[16:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ágæta yfirferð um þetta mál og sérstaklega það sem hann kom inn á að það væru bara tveir þættir sem hefðu haft þessi geigvænlegu áhrif á ríkissjóð og alla vega annar þeirra hefði verið fyrirséður og planaður. Það vantaði eiginlega hjá hv. þingmanni að geta þess að þetta var krafa atvinnulífsins, þetta var krafa fjölmiðla, þetta var krafa allra að íslensk stjórnvöld brygðust við kreppunni með svipuðum hætti og erlendis, með því að búa til lausafé. Þetta var í sjálfu sér nokkuð snjöll leið að flétta allt bankakerfið inn í. Þannig gátu litlu bankarnir keypt skuldabréf stóru bankanna og síðan innleyst með eigin ábyrgð inni í Seðlabankanum og þá fóru peningarnir til baka. Leiðin var nokkuð snjöll en svo kom náttúrlega í ljós þegar allt saman hrundi, sem enginn hafði gert ráð fyrir, að þetta dró litlu bankana með. Meiningin var sem sagt að allt bankakerfið bæri ábyrgð á þessu lausafé.

Það sem mig langaði til að benda á eða gagnrýna hv. þingmann fyrir er það að hann segir að þetta hafi verið afleiðing af hruninu. Það gerðist svo aftur 2009 en þá rýrnuðu tekjur ríkissjóðs allverulega sem þær gerðu ekki árið 2008 vegna þess að þá komu ekki nema nokkrir mánuðir til tekna. Árið 2009 rýrnuðu tekjur ríkissjóðs stórlega vegna fjármagnstekna af hagnaði fyrirtækja o.s.frv. og gjöldin stórjukust, t.d. varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð sem þurfti þá miklu meiri fjármuni. Hrunið kemur því líka fram enn þann dag í dag.