138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[16:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2008. Ég ætla að byrja á því að fara í gegnum hlutverk fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga.

Hlutverk fjárlaga er spá, þ.e. að spá fyrir um tekjur og gjöld ríkisins miðað við ákveðna stefnu sem ríkisstjórnin hefur í ýmsum þjóðmálum, atvinnumálum, menningarmálum o.s.frv. Þegar fjárlög hafa verið lögð fram og samþykkt á ekkert að greiðast annað en það sem gerist óvænt, það sem sannarlega var ekki hægt að sjá fyrir. Eins og komið hefur fram fyrr í dag eru fjárlögin lög sem binda hendur ríkisstofnana í útgjöldum. Þegar búið er að binda hendur ríkisstofnana, og þær eiga að fara að fjárlögum, á þess vegna ekkert að gerast nema eitthvað óvænt komi upp á. Ég nefni eldgos. Ég nefni bankahrun. Ég nefni ýmis atriði sem geta komið upp skyndilega. Ég nefni líka lagasetningu frá Alþingi sem getur breytt fjárlögum, en þá þarf það að fylgja þeirri lagasetningu að hún breyti fjárlögum á þennan hátt eða hinn. Fjáraukalög ættu því alltaf að vera eingöngu um atriði sem ekki var hægt að sjá fyrir. En svo er ekki, frú forseti.

Margar stofnanir — ég segi ekki að þær leiki sér að því — fara mjög léttúðlega með fjárlög. Það er eins og fjárlögin séu meira til hliðsjónar við reksturinn. Fjárlögin segja að einhver ákveðin hjúkrunarstofnun eigi að hafa þessi útgjöld og þessar tekjur, og það er eins og sumir forstöðumenn ríkisstofnana líti á þetta sem eitthvað til að hafa til hliðsjónar, eitthvað sem stofnanir þeirra eigi helst að ná en einhverju megi skakka. Aðrir forstöðumenn standa sig reglulega vel í rekstrinum og fara algjörlega að fjárlögum og því miður er það þannig að þeim er refsað. Hinir sem fara umfram fjárlög koma svo í lok árs, þegar fjáraukalög eru til umræðu, og segja að þá vanti 100 milljónir, eins og ekkert sé. Oft á tíðum er einmitt verið að laga þá stöðu þannig að þeir fá 100 milljónir. Það er þá hvatning fyrir þá að fara enn frekar fram úr fjárlögum á næsta ári. En hinir sem standa sig og fara algjörlega að fjárlögum horfa upp á það að þeir sem ekkert leggja á sig, reka stofnanirnar í hálfgerðu hugsunarleysi og í léttúð og án aga, fá verðlaun ár eftir ár. Þetta finnst mér ekki hægt, frú forseti.

Fjárlaganefnd ætti að kalla þá fyrir sem brutu fjárlög á árinu og spyrja: Hvað í ósköpunum voruð þið að gera? Hún á að segja við forstöðumanninn: Getur ekki verið að þú þurfir að leita þér að nýrri vinnu af því að þú ræður ekki við að fara að þeim ramma sem fjárlögin setja? Menn eiga bara að segja: Farðu nú og leitaðu þér að annarri vinnu. Við ætlum að finna annan í þetta. Það ætti ráðherrann náttúrlega að gera.

Það er nefnilega þannig að fjárlög eru lög. Og hafi menn sett einhver önnur lög skal fylgja þeim. Ég hef t.d. margoft nefnt bjartsýnislögin um heilbrigðisþjónustu, um að veita skuli bestu heilbrigðisþjónustu sem hægt er í heiminum. Allir vita og geta sagt sér það sjálfir að það er ekki hægt, það er hreinlega ekki hægt, það eru ekki til þess peningar í öllu landinu. Markmið af þessu tagi víkja náttúrlega alltaf fyrir fjárlögum. Þegar þau koma og sagt er að þessa peninga eigi að setja í heilbrigðiskerfið, þessa peninga í lyfin o.s.frv. þá verða menn að halda sig við það. Það er aginn sem fjárlögin eiga að veita. Því miður sér maður allt of oft í fjáraukalögum að þar hvín og sullar á súðum og hellingur lekur út sem átti ekki að leka út.

Ég held að menn ættu að gera þá kröfu að fjáraukalög séu alltaf aukafjárveitingar vegna ófyrirséðra atvika sem ekki var hægt að sjá fyrir þegar fjárlögin voru sett, að þau séu ekki tilkomin vegna þess að menn hafi langað til að gera eitthvað annað eða gjarnan viljað hafa reksturinn svona eða hinsegin. Menn eiga að fara að fjárlögum, það er bara þannig.

Síðan koma lokafjárlögin og þau ættu náttúrlega að koma mikið fyrr. Ég fellst á það, frú forseti, að aðstæður eru óvenjulegar. Þegar ríkið þarf að ráða við gjaldþrot bankakerfisins er viðbúið að lokafjárlög dragist eitthvað. En þetta er náttúrlega allt of langur dráttur, frú forseti, að vita fyrst núna hvernig ríkið lokaði 31. desember 2008. Menn eiga að stefna að því að hafa það miklu fyrr.

Það ætti að vera markmið fjármálaráðuneytisins, og ég vildi að svo væri, að lokafjárlög lægju fyrir í febrúar næsta ár. Það eru til stór fyrirtæki sem eru miklu stærri en ríkissjóður. Ég nefni Microsoft og ég nefni IBM og fleiri sem loka reikningum næstliðins árs jafnvel fyrir lok janúar og hafa miklu fleiri færslur og miklu meira umleikis en ríkissjóður Íslands. Þetta er bara spurningin um markmiðssetningu vegna þess að ef það er gert kemur um leið miklu meiri agi. Þá eru menn ekki eins lengi að dóla með hlutina eins og það sem við heyrðum hér um virðisaukaskattinn, að hann væri ekki innheimtur.

Ég fellst á það núna að aðstæður voru óvenjulegar í lok árs 2008 og því verður að fyrirgefa það að lokafjárlögin séu þetta seint á ferðinni. En ég skora á menn að koma með lokafjárlög 2009 fljótlega. Það frumvarp kemur varla fyrir lok þessa þings, sem situr til 15. júní, en alla vega í september, að það komi þá, og að árið 2010 komi þau fljótlega eftir áramót. Þetta eru markmiðin sem menn ættu að setja sér og vinna að vegna þess að það skapar svo mikinn aga í allt þjóðfélagið þegar ríkissjóður krefst þess að bókhaldi sé lokað, það krefst þess að færslur séu færðar, að málin séu gerð upp.

Nokkuð hefur verið rætt um ýmsar skuldbindingar ríkissjóðs. Þær eru óneitanlega mjög margar og ég hef margoft nefnt það að þær eru því miður duldar. Stærstu skuldbindingu ríkissjóðs er aldrei talað um en það er Tryggingastofnun. Tryggingastofnun borgar út, að mig minnir, um 60 milljarða og hún hættir því ekkert á morgun. Það held ég liggi alveg fyrir að Tryggingastofnun hættir ekkert að borga hversu mikið sem fjármálaráðherra langar til, hún hættir ekkert að borga út bætur til aldraðra og öryrkja, það er alveg á tæru. Þetta er skuldbinding sem verður um alla framtíð og hennar er hvergi getið í fjárlögum, fjáraukalögum eða í lokafjárlögum.

Svo er það LSR. Þar er ógreidd skuldbinding upp á 530 milljarða. Ég hefði nú bara talið að menn ættu að taka á honum stóra sínum og færa það inn í bókhaldið. Þetta er skuldbinding, hún liggur þarna fyrir. Það er meira að segja sagt í reikningum B-deildarinnar að þetta sé ógreitt upp á fleiri hundruð milljarða. Þetta eru eitthvað um fimm milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu sem er ógreitt. Ég skil ekki af hverju menn fela þetta fyrir skattgreiðendum. Það á að gera átak í því að færa þetta í eitt skipti þannig að fyrir liggi hver skuldbindingin er vegna opinberra starfsmanna. Og þá er ég að tala um B-deildina vegna þess að búið er að loka henni en hún er samt með þessum óskaplega háu skuldbindingum. Ég sé ekki alveg hvernig hægt er að lækka þá skuldbindingu en þó er hugsanlegt að stöðva frekari uppbyggingu réttinda, alla vega eftir 12 mánuði. Ég legg til að menn skoði það alvarlega að hætt verði að veita fólki heimild til að auka réttindin í B-deildinni.

Svo er það náttúrlega A-deildin. Þar þyrfti iðgjaldið að hækka mjög umtalsvert. Ég hugsa að það þyrfti að fara upp í 19,5%, úr 17,5%. Það er líka skuldbinding á meðan það er ekki gert. Það þarf að gera það og það lendir alfarið á ríkissjóði. Áfallið, hrunið, kemur inn í ríkissjóð til framtíðar í gegnum iðgjald til A-deildarinnar.

Frú forseti. Það sem ég sakna mest í þessu — og þá er ég ekki að tala um 2008 heldur 2009, ég er að tala almennt um fjárlög og fjáraukalög og lokafjárlög, í lokafjárlögum er verið að loka dæminu, loka því hvernig það lítur út — eru fjárlögin fyrir árið 2009 og fjárlögin fyrir árið 2010. Ég ætla að nefna Icesave einu sinni enn þó að ég viti að allir eru orðnir þreyttir á því hugtaki. Fjármálaráðherra sjálfur, sá sem flytur frumvarp til fjárlaga, skrifaði nefnilega undir samning í október 2009, seinni samninginn. Maður hefði haldið að eitthvað sé að marka undirskrift fjármálaráðherra, að hennar yrði getið í fjárlögum og sagt: Hér er skuldbinding upp á 100–700 milljarða, það er einhvers staðar þar á bilinu, jafnvel 100–900 milljarðar, allt eftir því hvernig sá samningur kemur út, hvað gerist á þeim mikla og langa tíma sem samningurinn stendur, hvernig þróast pundið, hvernig er innheimt í Landsbankanum, hvað mun íslenska ríkið þurfa að greiða mikið á endanum, hvað verða vextirnir háir o.s.frv., og þessa skuldbindingu vantar. Alþingi setti meira að segja þennan samning í lög í árslok 2009. Hans er engu að síður ekki getið í fjárlögum.

Mér finnst, frú forseti, að menn séu alltaf að plata skattgreiðendur framtíðarinnar eða reyna að gera það. Auðvitað var það samþykkt einhverjum dögum eftir að fjárlagafrumvarpið var afgreitt en fjárlagafrumvarpið á að taka yfir allar greiðslur, annaðhvort fjárlagafrumvarpið eða fjáraukalögin. Sennilega mundi maður flokka það undir fjáraukalög fyrir árið 2008, þá varð sá atburður sem um er rætt, alla vega 2009, því að þá voru lögin sett og samningurinn gerður. En þessa var ekki getið.

Svo vantar ýmis önnur mál sem ég hef sérstakan áhuga á, eins og Hörpu, það fyrirbæri vantar algerlega inn í þetta. Samþykkt var eitthvert 6. gr. ákvæði um að fjármálaráðherra væri heimilt að skrifa undir samning við eitthvert fyrirtæki, Portus. Það voru nú öll ósköpin. Ekki orð um það meir. Ég var plataður til að greiða þessu atkvæði á sínum tíma. Ég áttaði mig ekki á hvað þetta þýddi en þetta þýddi 300 eða 400 milljónir á ári í 35 ár fyrir ríkissjóð og annað eins fyrir Reykjavíkurborg, samtals er þetta orðið um 35 milljarðar. Þetta vantar alveg. Það er ekki orð um þetta. Getur fjármálaráðherra framtíðarinnar hætt við? Nei, hann getur ekki hætt við. Hann verður þá að borga skaðabætur. Þannig að það eru svona skuldbindingar sem menn eru að fara út í.

Mér finnst líka að auka þurfi agann hjá sveitarfélögum og að Alþingi eigi að vinna að því að sveitarfélögin skuldi helst ekki neitt. Við sjáum dæmi um Álftanes. Við sjáum dæmi um sveitarfélög sem eru með óskaplegar fjárfestingar í yfirbyggðum fótboltavöllum o.s.frv., eitthvað sem er svo dýrt að manni dettur ekki einu sinni í hug að reikna út hvað kostar fyrir krakkana að leika þarna fótbolta, dagurinn, klukkutíminn, hálftíminn eða mínútan.

En ríkið á líka eignir, menn geta huggað sig með því. Ég tala bara um skuldir en ríkið á líka eignir eins og vegi, skóla og byggingar í landinu. Og það á Landsvirkjun o.s.frv. Það á töluvert mikið af eignum. Það á allt hálendið, þjóðlendurnar. Þegar við settum lög um það að ríkið tæki til sín allar óbyggðirnar eignaðist það heilmikið eða 40% af öllu landinu. Þannig að ríki á þarna eignir. Það á líka óskattað fé í lífeyrissjóðunum sem má áætla að sé um það bil 20% af eignum t.d. lífeyrissjóðanna upp á 1.500 milljarða. Það eru um það bil 300 milljarðar. Svo á það líka eignir í séreignarlífeyrissjóðunum, sem við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðum til að ríkið mundi ná í til þess að brúa gjána sem myndaðist hjá þjóðinni eftir hrunið. Það eru þarna eignir sem ríkið getur náð í.

Ég hef nefnt það hér áður í umræðunni, og ætla rétt aðeins að koma inn á það, að fjárlögin og framkvæmd þeirra segja til um agann í fjármálum ríkissjóðs. Það er fordæmi um aga í fjármálum gagnvart sveitarfélögunum og það sendir þau skilaboð til fyrirtækja og almennings að menn þurfi að fara að reglum og lögum, standa skil á skuldbindingum sínum, t.d. með lán, að menn séu ekki í vanskilum. Það er miklu minna um vanskil víða erlendis en hér á landi. Það er vegna þess að ef menn fara í vanskil erlendis eru þeir nánast dottnir út úr þjóðfélaginu. Þeir sem leyfa sér að standa ekki við sitt og fara í vanskil lenda á svörtum lista. Þegar menn lenda í hruni, þegar fólk verður atvinnulaust og allar forsendur bresta, er kannski eðlilegt að menn lendi í vanskilum. Ég er ekkert að deila á það í sjálfu sér. Ég er að deila á þá sem voru í vanskilum fyrir hrun, sem var líka umtalsverður hópur. Ég man ekki eftir öðru en því að alltaf hafi einhverjir sem ég þekki verið blankir og verið í vandræðum fjárhagslega, af ýmsum ástæðum, ekki endilega einhverju utanaðkomandi.

Þetta eru hugleiðingar um frumvarp til lokafjárlaga. Ég legg til að hv. nefnd taki sér tak og ræði meira um hlutverk fjárlaga og hvernig hægt sé að gæta þess að þau hafi þau áhrif sem þau eiga að hafa. Það verður ekki gert öðruvísi en að menn auki agann, auki virðingu fyrir lögunum, gæti þess að ekki sé farið fram úr fjárlögum. Það verður ekki gert nema fjárlaganefnd fari mjög nákvæmlega í gegnum fjáraukalög, að þar sé eingöngu eitthvað sem er ófyrirséð. Sérstaklega þarf að gæta að því þegar kemur að lokafjárlögum að þau séu algjörlega í samræmi við fjáraukalögin. Það ætti í rauninni ekkert að bætast við. En mér skilst að það sé heilmikið sem bætist við fjáraukalögin sem samþykkt voru að mig minnir 22. desember 2008, þó að það ætti í rauninni ekkert að bætast við. Á þeim tímapunkti ætti allt að liggja fyrir, hvað er óvænt í rekstri ríkissjóðs, hvað hefur komið upp á og hverjar eru skuldbindingarnar, en þá er ekki nema ein eða tvær vikur til áramóta sem þessi fjárlög, fjáraukalög og lokafjárlög, eiga að taka til.