138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[16:36]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Oft er ágætt að hlýða á þingmenn hokna af reynslu ræða fjárlögin og framkvæmd þeirra og þegar maður hlýðir á mál þeirra undrast maður stundum hversu hægt gengur að ná fram breytingu í þessum verkum sem flestir virðast sammála um að nauðsynlegt sé að komist til framkvæmda. Í fyrri ræðu minni í dag um lokafjárlögin fyrir árið 2008 vitnaði ég til gagna sem Ríkisendurskoðun hefur unnið í tengslum við þetta frumvarp og þar sér maður ýmislegt sem eru svona gamlir „standardar“ ef svo má segja, þetta eru gömul atriði sem hafa gengið í gegnum umræðuna hér í mörg herrans ár á undan. Því svíður það kannski töluvert að sjá þessar athugasemdir koma aftur og aftur fram, ekki síst í ljósi þess hvernig staðan á ríkisfjármálum er um þessar mundir. Öllum ber saman um að erfitt sé og hart í búi og sjaldan eða aldrei hafi verið meiri þörf á að halda vel utan um hlutina og fjárreiður ríkisins en nú og betur en áður hefur verið gert, einfaldlega vegna þess að það þrengir að og minna er til skiptanna. Þá er dálítið dapurt að horfa upp á þetta dæmi eins og það birtist manni á þessum blöðum og ég leyfi mér enn og aftur að vitna til þess sem kemur fram í umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarp til lokafjárlaga sem fjárlaganefnd óskaði eftir að fá og við fengum í hendur 9. mars.

Eins og ég gat um og hef getið um þurfti töluvert mikla eftirgangssemi til að fá frumvarpið til lokafjárlaga fram, það kemur í raun rúmlega hálfu ári síðar í hendur fjárlaganefndar en ríkisreikningurinn svo furðulegt sem það er vegna þess að frumvarp til lokafjárlaga er í raun ekki neitt annað en staðfesting á þeim reikningi sem fyrir liggur.

Þegar farið var að bera þetta tvennt saman kom í ljós að töluverður mismunur var á milli ríkisreikningsins annars vegar og lokafjárlaganna hins vegar eða sem nam rúmum 1.300 millj. kr. Þá er annað tveggja að gera, annars vegar að taka ríkisreikninginn upp og í raun endursemja hann, sem er ekki góður hlutur, eða að reyna að laga lokafjárlögin að ríkisreikningnum. Sú leið var valin að reyna fremur að laga lokafjárlögin að ríkisreikningi. Það gekk ekki betur en svo að enn er óleyst misræmi á milli ríkisreiknings 2008 og lokafjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2008 á 11 fjárlagaliðum. Í rauninni var samkomulag um að vísa þeim mismun eða misræmi til gerðar lokafjárlaga og ríkisreiknings fyrir árið 2009, þ.e. að vísa þessu fram í tímann. Betur hefur það ekki gengið en raun ber vitni.

Ríkisendurskoðun fullyrðir að þetta misræmi leiði mjög glögglega í ljós þær ógöngur sem núverandi kerfi er komið í, þ.e. utanumhaldið um ríkisfjármálin. Því er ekki úr vegi að rifja örlítið upp hvernig sú staða er. Menn hafa nefnt það í ræðum í dag að afkoma ríkisins og ríkissjóðs hafi verið með ágætum á árinu 2008, hin reglubundnu starfsemi. Þrátt fyrir það gríðarlega högg sem fjármálakerfið varð fyrir með tilheyrandi skelli og tapi vegna Seðlabankans og síðan áfallnar lífeyrisskuldbindingar, hátt í 200 milljarðar kr., hafi annar rekstur ríkisins gengið mjög vel og útkoman verið með ágætum svo nam jákvæðum niðurstöðum um tugi milljarða. Það er undarlegt, þrátt fyrir þetta góða gengi, að sjá m.a. í endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar þegar hún greinir niðurstöður hjá stofnunum og skiptir athugasemdum niður í helstu meginflokka. Þá stoppa ég sérstaklega við einn þátt sem Ríkisendurskoðun kallar í skýrslu sinni í kafla 4.2 Gjöld umfram fjárheimildir. Ávallt eru gerðar athugasemdir við það þegar stofnanir ráðstafa fjármunum umfram heimildir fjárlaga og þrátt fyrir þá eftirgangssemi sem í þeim efnum hefur verið haldið úti, alla vega í orði, kemur í ljós að á árinu 2008 greiddu stofnanir ríkisins rétt tæpar 650 millj. kr. í dráttarvexti. Nú er ekki eins og það allt hafi stafað af hinu fjárhagslega höggi og hruninu í fyrrahaust, einungis u.þ.b. 150 milljónir af þessum 650 má með beinum hætti tengja bankahruninu. Stofnanir ríkisins hafa því, að undanskildum áhrifum af bankahruninu, verið að greiða hálfan milljarð króna í dráttarvexti vegna starfsemi sinnar. Þrátt fyrir að við finnum jafnvel dæmi um stofnanir sem starfa innan fjárheimilda finnum við þarna dæmi um stofnanir sem greiða engu að síður dráttarvexti vegna starfsemi sinnar og þetta eru umtalsverðar upphæðir í sumum tilfellum. Það er mjög umhugsunarvert og í rauninni ámælisvert að hlutirnir gangi með þessum hætti. Hins vegar er það undirstrikað í umsögn og endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar og bent á það að þær stofnanir sem eru í greiðsluþjónustu hjá ríkisféhirði þurfi ekki að greiða dráttarvexti þrátt fyrir hallarekstur. Þær hafa því heimild til að vísa beint á ríkissjóð við fjármögnun verkefna sinna án þess að bera af því refsivexti.

Ég held hins vegar að við þessa umræðu sé öllum hollt að rifja upp ákvæði laga um fjárreiður ríkisins frá árinu 1997 hvað varðar lokafjárlög og fríska aðeins upp á það, því að við dettum oft í það í umræðu sem þessari að ræða útfærslu fjárlaga almennt en ástæða er til að draga þetta aðeins upp. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í og lesa hér upp 45. gr. fjárreiðulaganna frá árinu 1997. Greinin hljóðar svo:

„Með ríkisreikningi sem lagður er fram á Alþingi, sbr. 7. gr., skal fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar. Þar skal leitað heimilda til uppgjörs á skuldum eða ónotuðum fjárveitingum sem ekki eru fluttar milli ára. Jafnframt skal leggja fram sérstaka skrá ásamt skýringum yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins. Heimilt er að greiða slíka umframgreiðslu af fjárveitingu næsta árs. Einnig skal gerð grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs.“

Í 44. gr. er svo vikið að ófyrirséðum atvikum, kjarasamningum eða því um líku sem hefur komið hér upp í umræðunni og heimildir þarf til til að fjármagna og slíkra heimilda þarf að leita hjá Alþingi við samþykkt fjáraukalaga. Það ber hins vegar að vekja athygli á því að í athugasemdunum sem fylgdu frumvarpi til fjáraukalaga árið 1997 er undirstrikuð sú ábyrgð og sú skylda sem lögð er á fjármálaráðherra að leggja fram endurskoðaðan ríkisreikning eigi síðar en tíu dögum eftir að þing kemur saman að hausti og með þeim sama ríkisreikningi skal honum til staðfestingar leggja fram frumvarp til lokafjárlaga vegna sama fjárhagsárs.

Eins og ég hef getið um í ræðum mínum í dag hefur þetta engan veginn gengið eftir. Í mínum huga er alveg ljóst að það verklag sem hér er rætt um hefur ekki með neinu móti náð fram að ganga og fjáraukalögin hafa iðulega að geyma fjárveitingar sem ýmist hefði mátt afgreiða í gildandi fjárlögum eða hefðu mátt bíða til næstu fjárlagagerðar. Hvernig sem maður lítur á þetta virðist það vera yfirgengilega erfitt verkefni að ná fram breytingum á þessu, en ég vil ítreka það að þetta þarf að breytast og það er beinlínis áskorun um það frá Ríkisendurskoðun til Alþingis að svo verði. Ég hvet fjárlaganefnd til standa saman við það verk.