138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[16:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég skynja þetta sem samhljóm okkar á milli eins og í mörgum öðrum málum í félags- og tryggingamálanefnd. Út af fyrir sig eru námslánin ekki á verksviði félags- og tryggingamálanefndar, en það hlýtur að vera æskilegt að við berjumst fyrir því hér innan þings að fá menntamálaráðherra eða þingmenn til að leggja fram frumvarp um að það sama gildi um námslán og atvinnuleysisbætur og aðrar bætur í almannatryggingakerfinu, að útgreiðsla séreignarlífeyrissparnaðar komi ekki til frádráttar þeim. Það verður að gera hratt og vel og má eiginlega segja að það sé yfirsjón þingsins, allir verða að taka það til sín, að hafa ekki gert það samhliða þessu. Í þessum lögum er gert ráð fyrir að þetta verði afturvirkt og þeir sem fengu skerta framfærslustyrki eða bætur fá þá skerðinguna endurgreidda. Ég geri ráð fyrir að það sama gildi um námslánin þegar frumvarp um þau verður lagt fram, vonandi sem fyrst.