138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek aftur undir með hv. þingmanni. Ég held að eðlilegt fyrsta skref væri að leggja fram fyrirspurn til skriflegs svars til mennta- og menningarmálaráðherra og biðja um áætlun um hver kostnaðurinn af þessu yrði fyrir ríkissjóð. Þá er ég ekki að segja að kostnaðurinn eigi að koma í veg fyrir þetta en við erum náttúrlega alltaf að horfa til ríkisfjármálanna. Við sáum það í félags- og tryggingamálanefnd að kostnaður við breytingar varðandi húsaleigubætur og atvinnuleysistryggingar er áætlaður að mig minnir 10–15 milljónir. Auðvitað eru það umtalsverðir fjármunir fyrir ríkissjóð þar sem við tökum daglega 300 milljónir að láni til að reka ríkið en í ljósi þess að þarna er um að ræða hópa sem hafa orðið fyrir mjög alvarlegum tekjumissi verðum við að finna 10 milljónir til að stoppa upp í það gat einhvers staðar annars staðar. Ég teldi það eðlilegt fyrsta skref til að hreyfa við málinu að leggja fram fyrirspurn til ráðherra um það mál og biðja um skriflegt svar.