138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[16:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um húsaleigubætur.

Frá því að efnahagshrunið átti sér stað hér á landi hefur virkilega reynt á atvinnuleysistryggingakerfið okkar, sem hafði sem betur fer ekki reynt mikið á áður þar sem atvinnuleysi hefur í gegnum tíðina verið í lágmarki á Íslandi. Nú þegar virkilega reynir á kerfið er eðlilegt að við tökum það til skoðunar og lagfærum það þegar við á.

Hér erum við að tala um ákvæði til að tryggja að gildistími heimildar til greiðslu hlutfallslegra atvinnuleysisbóta á móti skertu starfshlutfalli verði framlengdur. Þetta er gríðarlega mikilvægt vegna þess að við viljum að sjálfsögðu tryggja að þeir sem geta að einhverju leyti unnið eigi rétt á því að fá hlutabætur til þess að koma sér af stað, vonandi í mörgum tilfellum, og halda áfram vinnu við þau sérverkefni sem menn taka að sér. Ég tel að þetta sé mikilvægt og gott að samstaða sé í félags- og tryggingamálanefnd um breytingar sem þessar.

Nefndin vann þetta mál sameiginlega. Hún taldi rétt að leggja áherslu á að endurgreiðsla og skráning varðandi séreignarlífeyrissparnaðinn yrði einföld og liðug. Það er eitthvað sem við eigum að sjálfsögðu að keppast við að koma á í stjórnsýslunni alls staðar þar sem við getum, að reyna að laga framkvæmdina sem í sumum tilfellum er talsvert flókin og síst til þess fallin að venjulegir einstaklingar skilji þær kröfur sem stjórnsýslan leggur á hendur þeim. Ég fagna þessum efnisþáttum frumvarpsins.

Hins vegar er önnur umræða um þetta frumvarp sem hefur kannski farið minna fyrir og hún er um kostnaðinn. Við þurfum að sjálfsögðu alltaf að reyna að gera okkur grein fyrir því hvaða kostnaður hlýst af þeim ákvörðunum sem við tökum í þinginu. Mig langar því, frú forseti, að vekja aðeins athygli á umsögn fjármálaráðuneytisins um þetta frumvarp, en ljóst er að breytingarnar munu hafa kostnað í för með sér. Hér kemur fram, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum er áætlað að útgjöld ríkissjóðs gætu aukist um 200 millj. kr. vegna hlutaatvinnuleysisbóta sjálfstætt starfandi og um 10 millj. kr. vegna breytingu á tekjutengingu atvinnuleysisbóta eða samtals um 210 millj. kr. miðað við forsendur fjárlaga 2010. Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekki lagt fram tillögur um hvernig skuli mæta þeirri útgjaldaaukningu.“

Það hefði verið betra hefði svo verið gert af hálfu ráðuneytisins og við áttum okkur á því að þegar lítið fé er til skiptanna þarf að vanda sig við allar þær ákvarðanir sem eru til útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. En í þessu tilviki tel ég að ávinningurinn sé slíkur vegna þess að þarna hvetjum við til þess að fólk geti unnið að hluta. Þess vegna get ég stutt þetta mál.

Hins vegar, frú forseti, á ríkisstjórnin eftir að svara þeirri spurningu, sem er órædd í félagsmálanefnd, til hvaða aðgerða við ætlum að grípa til að fækka þeim sem þurfa á þessum bótum að halda. Það er auðvitað stærsta verkefnið okkar, stóra verkefnið sem við stöndum öll frammi fyrir.

Fyrr í dag samþykktum við eitt gott mál varðandi gagnaver í Reykjanesbæ og gagnaver á Suðurnesjum sem kemur til með að aðstoða okkur við að koma fleirum út á vinnumarkaðinn. Ljóst er að hér höfum við sem höfðum kjark til að styðja það mál stigið stórt skref.

Það er afskaplega mikilvægt að ríkisstjórnarflokkarnir sýni okkur fram á að full alvara sé á bak við þá stóru áskorun að tryggja fleiri einstaklingum atvinnu og sýni með hvaða hætti eigi að bregðast við því hruni sem varð hér í efnahagskerfinu og hefur haft þær afleiðingar að fjöldi manns er án atvinnu. Í þeim tölum sem birtast í greinargerðinni með þessu frumvarpi kemur fram að í janúar 2010 hafi skráð atvinnuleysi verið 9% af innlendum vinnumarkaði, sem eru 14.705 einstaklingar. Í febrúar 2010 var skráð atvinnuleysi orðið 9,3%, sem jafngildir því að 15.026 einstaklingar hafi að meðaltali verið án atvinnu. Þetta eru háar tölur og greinilega stórt verkefni þar á ferð. Grípa þarf til róttækra aðgerða til að sporna gegn þessu, vegna þess að það síðasta sem við viljum er að atvinnuleysi festist í sessi hér á landi.

Ég kom að því fyrr í ræðu minni að í sögulegu samhengi hefur atvinnuleysi reynst lítið á Íslandi. Sem betur fer hefur lítið reynt á það kerfi sem við höfum í kringum atvinnuleysistryggingarnar. Nú reynir hins vegar á en við skulum öll einhenda okkur í það verkefni og reyna að tryggja að atvinnuleysi verði ekki viðvarandi.

Eitt af því sem tengist þessu er sú aðildarumsókn sem lögð hefur verið fram varðandi Evrópusambandið. Þegar aðildarumsóknin sjálf var til meðferðar í þinginu var talað mikið um það að evran mundi bjarga okkur út úr þeim efnahagsþrengingum sem við stöndum frammi fyrir. Það er að sjálfsögðu rangt og ég er ekki sammála því. Einn af helstu ókostunum sem fylgja evrunni er sá að á því svæði þar sem evran er er atvinnuleysi mikið, að meðaltali á milli 8% og 9%. Þá staðreynd vil ég ekki sjá sem eðlilegt ástand hér á landi. Þegar maður talar við erlenda kollega um efnahagsmálin og þeir spyrja hversu hátt atvinnuleysið sé hér á landi verða þeir hálfhissa þegar maður kemur með tölurnar, vegna þess að víðast hvar í Evrópu þykir þetta ekki tiltökumál. Það er vegna þess að þar er áherslan á öðrum hlutum. Íslendingar eru einfaldlega þannig gerðir að þeir passa ekki inn í hina evrópsku staðalímynd, við viljum ekki ganga um án atvinnu og við skulum reyna að tryggja það með öllum ráðum að þetta ástand sem verið hefur síðustu missiri eða síðastliðna mánuði verði ekki að föstum stuðli hér á landi.

Ég held að það sé eitt af stóru verkefnunum okkar sem sitjum á þingi. Þess vegna væri áhugavert, frú forseti, að efna til umræðu, t.d. utandagskrárumræðu, um það með hvaða hætti skuli reynt að koma til móts við þetta fólk. Vissulega er gott að bæta stuðningsnetið líkt og við erum að gera með þessu frumvarpi hér í dag en hins vegar er stóra verkefnið að ganga í þetta mál og tryggja fleirum atvinnu. Þá má maður ekki vera hræddur við erlendar fjárfestingar eða fjárfestingar almennt og menn þurfa að reyna að liðka fyrir því að einstaklingar með góðar hugmyndir nái að koma þeim á framfæri. Þess vegna er líka mikilvægt að bankakerfið virki og að bankarnir veiti fyrirgreiðslu og að við reynum að koma því kerfi öllu saman aðeins upp úr því frosti sem það virðist vera í og hafa verið í undanfarna mánuði. Þetta er stóra verkefnið.

Hvernig það síðan verður gert er eitthvað sem ég tel að við hér í þinginu eigum að reyna að sammælast svolítið um. Það hefur gengið vel hjá okkur í félags- og tryggingamálanefnd að vinna saman þvert á flokka og það er vegna þess að við áttum okkur á því að verkefnin eru gríðarlega umfangsmikil, bæði atvinnuleysið og ekki síður það sem snýr að okkur varðandi skuldavanda heimilanna. Okkur er full alvara, að því er mér sýnist á nefndarmönnum, að reyna að vinna saman af heilindum að því markmiði að reyna að tryggja það að fjölskyldur landsins missi ekki heimili sín og reyna að tryggja að sú umgjörð sem einstaklingum sem hafa misst atvinnu sína er búin sé þannig úr garði gerð að hún sé liðug, að takmarkanir séu skýrar og að menn séu áttaðir á því hvert umhverfið er og fái réttar og góðar upplýsingar. Þetta er svona það helsta sem stjórnvöld eiga að gera fyrir utan það auðvitað að liðka fyrir því að atvinnulífið nái að eflast, að atvinnutækifærum komi til með að fjölga og að fleiri einstaklingar hætti að þurfa á atvinnuleysisbótum að halda og komist út á vinnumarkaðinn. Í því skyni er mikilvægt, eins og fram kemur í þessu frumvarpi, að tryggja þessum einstaklingum það að þeir geti verið á hlutabótum á meðan þeir sinna starfi, annað hvort í verktöku eða hlutastarfi, þannig að þeir nái að komast að einhverju leyti út á vinnumarkaðinn. Það hefur sýnt sig erlendis þar sem menn hafa átt slík úrræði að þau hjálpa til við að menn komist í fasta vinnu.

Ég fagna þessu frumvarpi og því góða samstarfi sem verið hefur innan nefndarinnar og ég vona að við förum að sjá fleiri stór verkefni verða að veruleika sem fjölga störfum hér á landi og draga úr þörf fyrir stóran atvinnuleysistryggingasjóð.