138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og þakka jafnframt fyrir það að öll nefndin er samstiga í þessu máli og að við afgreiðum það saman. Ég vildi þó koma hér upp vegna orða þingmannsins um það að við ættum að fá Vinnumálastofnun á okkar fund. Ég held að það væri alveg tímabært. Ég vil þó minna hv. þingmann á að það er ekki svo langt síðan við fengum Vinnumálastofnun til þess að segja okkur frá átakinu sem farið var í vegna atvinnuleysis ungs fólks og að virkja það á námskeiðum og öðrum vinnumarkaðsúrræðum. Þá kom fram í máli Vinnumálastofnunar að fljótlega færi af stað átak fyrir fólk sem hefði lengi verið atvinnulaust eins og innflytjendur á vinnumarkaði. Þannig að nefndin hefur svo sem, á milli mikilla anna núna undir lokin, náð að fjalla aðeins um þessi mál. Ég er fullkomlega sammála, frú forseti, hv. þingmanni að það er full þörf á að við í nefndinni gefum þessum málum miklu meiri gaum. En það er bara þannig með félags- og tryggingamálanefnd að það heyra óheyrilega margir málaflokkar undir hana og skuldirnar sem hafa bæst við eru mjög knýjandi.

Að lokum varðandi það að efla atvinnumiðlanir. Ég hefði haldið að starfsemi á frjálsum markaði sprytti upp þar sem eftirspurn er til staðar. Svo virðist vera sem fyrirtæki leiti ekki í auknum mæli til þessara atvinnumiðlana. Ég sé ekki að það sé hlutverk ríkisvaldsins að fara inn á þann markað. Við rekum Vinnumálastofnun. Ef fyrirtæki telja sig fá tilhlýðilega þjónustu þar, sækja þau ekki út á einkamarkaðinn.