138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[17:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni, formanni nefndarinnar, fyrir andsvarið.

Það er rétt, við höfum rætt við Vinnumálastofnun um að auka virkni atvinnulauss fólks, sérstaklega yngra fólks, en það væri miklu betra að koma því í vinnu. Það sem ég sagði var reynslusagan sem ég hlustaði á í útvarpinu þar sem rætt var við manneskju sem leitaði til Vinnumálastofnunar og það var bara eins og enginn væri atvinnulaus. Það var ekki hægt að fá fólk til þess að sinna þessum störfum sem hún var með laus og þurfti að ráða í. Nú má vel vera að það sé ágætt að til séu einkavinnumiðlanir og þær eru vissulega til, en mér finnst að fyrst þessi stofnun hafi það hlutverk að miðla eigi hún að gera það. Hún eigi að hafa 10.000 atvinnuleitendur á sinni könnu, það eigi að vera hægt að segja strax: „Hér er einhver að leita að starfsmanni, viltu fara í viðtal?“ Það ætti að senda þessum 10.000 manns svona orðsendingu hverju sinni eða hafa þetta á netinu. Þetta er allt hægt í dag í þeirri tölvuvæðingu sem hér er.