138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun.

354. mál
[18:53]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa tekið til máls fagna þeirri tillögu sem komin er til afgreiðslu. Ég vil segja við tillöguflytjanda hv. þm. Guðmund Steingrímsson að það eina leiðinlega við tillöguna var að ég fékk ekki tækifæri til að flytja hana með honum. Ég var afar ánægður að sjá að hún var flutt og ég er ánægður að fá tækifæri til að vera með á nefndaráliti um þetta skref í réttindamálum og, eins og hér hefur verið orðað, í mannréttindamálum fólks með fötlun.

Það þarf í sjálfu sér ekki að bæta miklu við það sem hér hefur verið sagt. Hér er tekið fyrsta skrefið. Fram undan eru mikilvæg verkefni varðandi málefni fólks með fötlun. Þá á ég við yfirfærsluna til sveitarfélaganna og það þarf auðvitað að vanda mjög vel til. Ég skal segja það í hreinskilni að þegar við byrjuðum niðurskurðinn eftir hrunið og þurftum að taka á öllum málum og þar með talið að skera niður bætur og greiðslur til þeirra sem við skertan hlut búa, var það gríðarlega sárt. Það er það auðvitað enn, þegar við reynum að stilla samfélaginu upp á nýtt miðað við þann fjárhag sem ríkissjóður hefur. Þegar hér voru á pöllunum aðilar frá hagsmunasamtökunum að mótmæla þá hitti ég hluta af þeim hóp. Ég vakti athygli þeirra á því hvað það skipti gríðarlega miklu máli að einmitt þetta fólk í samfélagi okkar hefði sjálft skoðanir á því með hvaða hætti við gerðum þessa hluti, með hvaða hætti við byggðum því réttlátara og betra samfélag. Það hefur fylgt því afar vel eftir. Það tók mig á orðinu og raunar hafa sjálfsagt fleiri haft þetta á orði við viðkomandi aðila sem hafa unnið gríðarlega góða vinnu og komið fram með hugmyndir um það hvernig þau vilja að að þeim sé búið í samfélaginu. Allt snýst þetta um það að við viljum að allir einstaklingar sem búa hér búi við mannréttindi, þau sömu réttindi að geta lifað og tekið þátt í samfélaginu með sem virkustum hætti. Ég tel að tillagan sé skref í þá átt og fagna henni sérstaklega og þakka þeim sem hér hafa unnið.

Nefndaráætlun var þannig að fjárlaganefnd var sett á sama tíma og félags- og tryggingamálanefnd og ég hef því einfaldlega haft lítið tækifæri til að starfa með félags- og tryggingamálanefnd. Í þau skipti sem ég hef fengið að koma í nefndina hefur verið sérlega ánægjulegt að fylgjast með hvernig hún hefur unnið. Þar hafa allir unnið sem einn að því að finna sem bestar lausnir enda hafa komið gríðarlega góðar og vandaðar tillögur frá nefndinni. Ég vona og veit að það verður áfram.

Ég tek til máls fyrst og fremst til að fagna tillögunni og hlakka til að fylgjast með hver næstu skrefin verða og taka þátt í áframhaldandi bættri þjónustu og bættum mannréttindum fyrir alla Íslendinga, þar með talið fólk með fötlun.