138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[19:32]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar til að gera athugasemd við dagskrá fundarins það sem eftir er kvölds. Það hefur dregist úr hófi að fjalla um mál sem eru á dagskrá í dag, m.a. vegna þess að fjölmargir þingmenn þurftu að gera grein fyrir atkvæði sínu þegar greidd voru atkvæði um gagnaver. Þess vegna langar mig að fara þess á leit við hæstv. forseta Alþingis að frumvarpinu um stjórnlagaþing, sem er á dagskrá á eftir fjórum öðrum málum, verði frestað til morguns. Stjórnlagaþing er mjög mikilvægt mál, það þarf mikla umræðu og mér finnst ekki við hæfi að hún fari fram að næturlagi á Alþingi. Ég tel rétt að stjórnlagaþingið verið flutt til morguns og haft sem fyrsta mál á dagskrá á morgun til að fólk geti fylgst með því yfir daginn. Það er yfirleitt meira um fjölmiðla og fréttir af þingi á daginn en á kvöldin og næturnar og þetta mál er þannig vaxið að ég held að það veiti ekkert af því að almenningur sé vel upplýstur um umræðuna sem mun fara fram um það.